Allir þurfa að leggjast á árarnar

Vextir á Íslandi | 4. maí 2022

Allir þurfa að leggjast á árarnar

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, segir hækkun stýrivaxta Seðlabanka Íslands um eina prósentu ekki koma sér á óvart. Bankinn sé einfaldlega að sinna skyldu sinni.

Allir þurfa að leggjast á árarnar

Vextir á Íslandi | 4. maí 2022

Lilja Alfreðsdóttir.
Lilja Alfreðsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, segir hækkun stýrivaxta Seðlabanka Íslands um eina prósentu ekki koma sér á óvart. Bankinn sé einfaldlega að sinna skyldu sinni.

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, segir hækkun stýrivaxta Seðlabanka Íslands um eina prósentu ekki koma sér á óvart. Bankinn sé einfaldlega að sinna skyldu sinni.

Hún segir alla í samfélaginu þurfa að leggjast á árarnar og fara í samstilltar aðgerðir til að ná tökum á verðbólgunni svo að hún rýri ekki kaupmátt almennings.

Ganga þarf fram með góðu fordæmi

„Í fyrsta lagi þarf vinnumarkaðurinn að líta til þessa veruleika ásamt stjórnendum fyrirtækja og ganga fram með góðu fordæmi. Í öðru lagi þurfa opinber fjármál að vera aðhaldssöm a.m.k næstu 18 mánuði. Í þriðja lagi þarf að fylgjast náið með þróun verðlags, þ.e. að fyrirtæki og þjónustuaðilar hækki ekki verð umfram það sem eðlilegt getur talist. Samkeppniseftirlitið hefur þegar hafið þá vinnu og fagna ég henni mjög. Að lokum þá verður að byggja meira. Stór þáttur í hækkun vísitölu neysluverðs er framboðsskortur á húsnæði,“ segir Lilja í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is.

Hún bendir á áframhaldandi óvissu vegna stríðsátakanna í Úkraínu og hnökra í framleiðslu og flutningum. Eins og bent hafi verið á í nýlegum blaðagreinum óttist hún jafnframt langtímaáhrif þess að hnattvæðingin virðist vera að ganga til baka, sem verði slæmt fyrir verðbólguþróun.

Atvinnulífið að taka við sér 

„Efnahagshorfur fyrir Ísland eru samt sem áður góðar. Búast má við áframhaldandi hagvexti og minnkandi atvinnuleysi en það er minna en búist var við. Atvinnulífið er að taka við sér eftir faraldurinn og er meðal annars drifið áfram af ferðaþjónustu. Þrátt fyrir stríðið hafa viðskiptakjör batnað vegna þess að verð á útflutningi hefur hækkað, svo sem sjávarafurðum og áli,“ segir Lilja og bætir við að gefa þurfi nýrri vaxtahækkun tíma til að virka áður en næstu skref verði tekin.

„Stór hluti aukinnar neyslu síðustu mánuði kann að vera tímabundinn vegna frestaðrar neyslu í faraldrinum. Það kann því að vera að krafturinn í innlendri eftirspurn sé ofmetinn og það hægist á einkaneyslunni þegar aukinn sparnaður heimilanna er uppurinn,“ segir hún.

mbl.is