Ásgeir ósammála auglýsingu VR

Vextir á Íslandi | 24. ágúst 2022

Ásgeir ósammála auglýsingu VR

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri telur að ekki sé verið að tala út frá staðreyndum í auglýsingaherferð VR „Ég bara spyr“ þar sem sagt er að „vaxtahækkanir bitna á endanum fyrst og fremst á almenningi“. Hann segir að vandamálið sé mun flóknari en svo.

Ásgeir ósammála auglýsingu VR

Vextir á Íslandi | 24. ágúst 2022

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á kynn­ing­ar­fundi pen­inga­stefnu­nefnd­ar í morgun.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á kynn­ing­ar­fundi pen­inga­stefnu­nefnd­ar í morgun. mbl.is/Hákon

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri telur að ekki sé verið að tala út frá staðreyndum í auglýsingaherferð VR „Ég bara spyr“ þar sem sagt er að „vaxtahækkanir bitna á endanum fyrst og fremst á almenningi“. Hann segir að vandamálið sé mun flóknari en svo.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri telur að ekki sé verið að tala út frá staðreyndum í auglýsingaherferð VR „Ég bara spyr“ þar sem sagt er að „vaxtahækkanir bitna á endanum fyrst og fremst á almenningi“. Hann segir að vandamálið sé mun flóknari en svo.

Þetta var meðal þess sem kom fram á kynn­ing­ar­fundi pen­inga­stefnu­nefnd­ar, en í morg­un var til­kynnt um 0,75 pró­senta stýri­vaxta­hækk­un.

„Háir vextir hafa leið til þess að eignarverð lækkar að öðru óbreyttu. Háir vextir vinna á móti þeim sem eiga eignir,“ segir Ásgeir.

 „Ákveðinn hluti almennings eins og ungt fólk á fasteignamarkaði finnur verulega fyrir hækkunum hjá okkur, alveg svakalega, ég er ekki að gera lítið úr því. Eldra fólk sem skuldar ekki og á eignir, það er kannski önnur saga þar.

Það sem er hins vegar ljóst er að verðbólga kemur niður á öllum. Það er enginn að græða á henni. Það er bara þjóðfélagslegt tap. Við erum að breyta stýrivöxtum til þess að koma í veg fyrir tapið á henni,“ segir Ásgeir.

Enginn valkostur í raun

Ásgeir segir að hann muni verða þakklátur þeim sem myndu hjálpa til við að ná verðbólgunni niður. Til dæmis ef ríkissjóður myndi draga úr heildar eftirspurn og að kjarasamningar yrðu gerðir sem myndu vinna með markmiði Seðlabankans.

Rann­veig Sig­urðardótt­ir, vara­seðlabanka­stjóri pen­inga­stefnu, segir að ekki sé um neitt val að ræða.

„Auðvitað má alveg rökstyðja að til skamms tíma auki þetta kostnað á einhvern hátt en valkosturinn er ekki að gera ekki neitt því þá eykst verðbólgan. Við höfum ágætis tilraun í gangi um hvað gerist ef þú lækkar vexti [við verðbólgu] í Tyrklandi. Verðbólgan þar er 80%.“

Kjarasamningar skipta engu ef verðbólga gengur laus

Ásgeir segir að frá árinu 2009 hafi gengið tiltölulega vel að halda verðlagi í landinu stöðugu.

„Verðstöðugleikinn veltur á okkur. Ef við missum stjórn á verðbólgu, sem við ætlum ekki að gera, er alveg sama hvað er samið um í kjarasamningum. Það kemur ekki kaupmáttaraukning. Þið getið samið um allt mögulegt en það koma ekki fram almennileg lífskjör,“ segir Ásgeir.

„Stöðugt verðlag er ekki sjálfgefið og við þurfum að bregðast við. Við erum að hugsa um hagsmuni launafólks.“

Bankar ekki að fara að lána til að tapa pening

Þór­ar­inn G. Pét­urs­son, aðal­hag­fræðing­ur Seðlabank­ans, segir að það verði ekki þannig að ef Seðlabankinn bregðist ekki við verðbólgunni muni að lánakjör á markaði muni haldast lág.

„Útlánsvextir muna á einhverjum tímapunkti hækka vegna þess að þið eruð væntanlega ekki að fara að lána til þess að tapa peningum,“ segir Þórarinn og beinir svari sínu að starfsmönnum bankana í salnum.

„Það verður ekki þannig að það sé hægt að vera með 10-20% verðbólgu en 2-3% útlánavexti eða 4-5%. Á endanum munu þeir endurspegla verðbólgustig. Auðvitað verður þetta erfitt fyrir okkur á meðan við erum að ná niður verðbólgunni en hinn valkosturinn að gera ekki neitt er ennþá verri fyrir almenning og sérstaklega fólk sem hefur lægri tekjur.“

mbl.is