Draumastaður eða ferðamannagildra?

Sólarlandaferðir | 5. febrúar 2024

Draumastaður eða ferðamannagildra?

Margir þekkja grísku eyjuna Santorini og dreymir um að ferðast þangað, skiljanlega, enda undurfalleg. Hún er meðal annars þekkt fyrir hvítar byggingar, heiðbláan himin og hrífandi sólsetur.

Draumastaður eða ferðamannagildra?

Sólarlandaferðir | 5. febrúar 2024

Santorini er heldur betur falleg eyja.
Santorini er heldur betur falleg eyja. Samsett mynd/mbl.is/Inga

Margir þekkja grísku eyjuna Santorini og dreymir um að ferðast þangað, skiljanlega, enda undurfalleg. Hún er meðal annars þekkt fyrir hvítar byggingar, heiðbláan himin og hrífandi sólsetur.

Margir þekkja grísku eyjuna Santorini og dreymir um að ferðast þangað, skiljanlega, enda undurfalleg. Hún er meðal annars þekkt fyrir hvítar byggingar, heiðbláan himin og hrífandi sólsetur.

Síðasta sumar ferðaðist ég um nokkrar grískar eyjur, meðal annars Santorini. Af öllum var ég spenntust fyrir því að heimsækja Santorini. Hins vegar líkaði mér betur við aðrar eyjur sem ég sótti heim. Hvers vegna? Jú, vegna allra túristanna! Það er vart þverfótað fyrir þeim.

Fyrir ykkur sem eruð á leiðinni til Santorini eða dreymir um ferð þangað þá er ég með nokkur ráð fyrir ykkur og hugmyndir að afþreyingu á eyjunni.

Hvar eru allar myndirnar teknar? 

Þorpið Oia er aðalstaðurinn. Þar eru flestar myndir sem þið sjáið af eyjunni teknar. Oia er verulega fallegt þorp, en fjöldi ferðamanna sem þar er gerir staðinn ekki eins sjarmerandi að mínu mati. Í þorpinu myndast langar raðir að stöðum sem eru vinsælir fyrir myndatökur. Ég er vissulega sek um að hafa staðið í tveimur þannig röðum til að ná hinni fullkomnu Santorini-mynd. Að mínu mati var það samt alveg þess virði, sem mér finnst smá vandræðalegt að viðurkenna.

Ferðamenn laðast að bænum Oia.
Ferðamenn laðast að bænum Oia. Samsett mynd/mbl.is/Inga

Vínsmökkun með einstöku útsýni

Ýmis vín eru framleidd á Santorini. Ég heimsótti víngerðina Venetsanos. Hún er á stað sem býður upp á magnað útsýni. Nú er ég ekki vínsnobbuð en að mínu mati var boðið upp á virkilega gott hvít- og rauðvín. Þeir sem drekka ekki áfengi, en ferðast með fólki sem gerir það, gætu notið þess að heimsækja víngerðina bara útsýnisins vegna.

Útsýnið er geggjað! Ég mæli samt ekki endilega með að …
Útsýnið er geggjað! Ég mæli samt ekki endilega með að klæðast stuttum kjól þar sem það er mjög vindasamt á svæðinu. mbl.is/Inga

Draumasigling 

Á meðan ég dvaldi á Santorini fór ég í siglingu í kringum eyjuna. Það var einstakt að sjá eyjuna frá sjónum og fylgjast með sólsetrinu þaðan. Á nokkrum stöðum fengum við að hoppa út í sjóinn og synda aðeins. Einnig var tónlist spiluð á bátnum og því mikið tjúttað. Þetta var virkilega skemmtileg upplifun sem ég mæli eindregið með. 

Ýmis fyrirtæki bjóða upp á siglingar um eyjuna.
Ýmis fyrirtæki bjóða upp á siglingar um eyjuna. Samsett mynd/mbl.is/Inga

Kvöldverður og sólsetur

Bærinn Fira er skemmtilegur, en hann er höfuðborg Santorini. Ég snæddi kvöldverð í bænum eitt kvöldið. Þetta var eiginlega eins og að vera í bíómynd. Útsýnið og sólsetrið var svo fallegt að ég get eiginlega ekki lýst því nægilega vel í orðum.

Hver elskar ekki kvöldverði með útsýni?
Hver elskar ekki kvöldverði með útsýni? mbl.is/Inga

Færri ferðamenn

Þorpið Megalochori er ákaflega fallegt. Þar eru færri ferðamenn en í Oia, sem er mikill kostur að mínu mati. Fyrir þá sem vilja ná góðum Instagram-myndum mæli ég með ferð þangað.

Þú nærð góðum myndum í Megalochori, og þarft að öllum …
Þú nærð góðum myndum í Megalochori, og þarft að öllum líkindum ekki að bíða í röð eins og í Oia. Samsett mynd/mbl.is/Inga

Hvernig er djammið?

Santorini er ekki þekkt fyrir næturlíf, eins og aðrar nágrannaeyjar, en það eru þó fjöldi skemmtistaða á eyjunni. Í bænum Fira kíkti ég aðeins á djammið. Ég skemmti mér konunglega en get þó sagt að aðrar eyjur bjóði upp á betra næturlíf. Fyrir þá sem vilja alvöru djamm mæli ég frekar með eyjunni Mykonos.

Bærinn Fira að kvöldi til.
Bærinn Fira að kvöldi til. mbl.is/Inga

Er þess virði að heimsækja Santorini?

Santorini er algjör draumastaður að mínu mati, en að einhverju marki líka smá ferðamannagildra. 

Eyjan er ótrúlega falleg og mér fannst mjög gaman að loksins koma þangað, en ég varð fyrir vonbrigðum með alla ferðamennina sem þar voru. Þessi mikli fjöldi fólks gerði upplifunina síðri.

Þrátt fyrir það mæli ég samt með ferð þangað fyrir þá sem dreymir um að heimsækja þennan einstaka stað, en ég myndi sjálf ekki kjósa að verja öllu fríinu mínu á eyjunni. Ég mæli því með að verja nokkrum dögum á Santorini en heimsækja svo aðrar eyjur, til dæmis eyjuna Paros, sem er uppáhalds eyjan mín af öllum þeim fimm eyjum sem ég ferðaðist til síðasta sumar.

mbl.is