„Eiga að berjast fyrir öllum okkar hagsmunum“

Eldvirkni á Reykjanesskaga | 19. febrúar 2024

„Eiga að berjast fyrir öllum okkar hagsmunum“

Páll Valur Björnsson, fyrrverandi þingmaður og Grindvíkingur til 40 ára, segir að fundur íbúa Grindavíkur með bæjarstjórninni í Laugardalshöll í dag hafi að mörgu leyti verið ágætur og löngu tímabær.

„Eiga að berjast fyrir öllum okkar hagsmunum“

Eldvirkni á Reykjanesskaga | 19. febrúar 2024

Grindvíkingar fjölmenntu á íbúafund í Laugardalshöllinni í dag.
Grindvíkingar fjölmenntu á íbúafund í Laugardalshöllinni í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Páll Valur Björnsson, fyrrverandi þingmaður og Grindvíkingur til 40 ára, segir að fundur íbúa Grindavíkur með bæjarstjórninni í Laugardalshöll í dag hafi að mörgu leyti verið ágætur og löngu tímabær.

Páll Valur Björnsson, fyrrverandi þingmaður og Grindvíkingur til 40 ára, segir að fundur íbúa Grindavíkur með bæjarstjórninni í Laugardalshöll í dag hafi að mörgu leyti verið ágætur og löngu tímabær.

„Við höfum ekki séð framan í þau síðan 10. nóvember og þessi fundur með bæjarstjórninni var löngu orðinn tímabær. Það var rólegt á fundinum til að byrja með en undir lokin fór aðeins að hitna í kolunum,“ segir Páll Valur í samtali við mbl.is.

Hann segir að fólk hafi látið tilfinningar sínar í ljós á fundinum enda finnist mörgum að bæjarstjórnin hafi ekki staðið sig nógu vel við að verja hagsmuni Grindvíkinga.

Standa í lappirnar gagnvart ríkisvaldinu

„Það má svo sem deila um það því þetta fólk er líka í áfalli. En það verður samt að átta sig á því að það er í forystuhlutverki fyrir bæinn og á að vera að berjast fyrir öllum okkar hagsmunum. Ég sagði það í minni ræðu að þau yrðu að standa í lappirnar gagnvart ríkisvaldinu til að fá allar okkar kröfur í gegn,“ segir Páll.

Spurður hvað hafi legið helst á fólki segir Páll Valur:

„Í fyrstu lá mest á fólki hvað varðar uppkaupin á húsum. Mörgum finnst skammur tími gefinn til að taka ákvörðun varðandi þau málefni og allt of mikill asi sé á hlutunum. Fólk á erfitt með að slíta taugina við bæinn sinn. Þá spurðu margir um lögheimilis skiptingar og hvað bæjarstjórnin hafi hugsað sér að gera í þeim málum. Mér fannst ekki mikið um svör frá bæjarfulltrúum og ég átti heldur ekkert von á því,“ segir Páll Valur.

Margar spurningar brunnu á íbúum Grindavíkur með bæjarstjórninni í dag.
Margar spurningar brunnu á íbúum Grindavíkur með bæjarstjórninni í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Honum finnst að þegar fólk er í bæjarstjórn við aðstæður eins og þær sem eru hjá fólki þá eigi bæjarfulltrúar að vera í bakinu á þingmönnum og berjast fyrir hagsmunum íbúanna.

„Ég benti á það í ræðu minni að það eru fjórir þingmenn úr Suðurkjördæmi sem eru í efnahags- og viðskiptanefnd sem fólk ætti að hafa samband við og bæjarstjórnin að gera það fyrir hönd bæjarbúa að koma öllum tillögum og spurningum til þeirra,“ segir Páll, sem segist vera búinn að taka ákvörðun um það að flytja til Reykjavíkur.

Heitar umræður um skólamálin

Páll segir að undir lok fundarins hafi skapast heitar umræður um skólamálin. Hann segir að ein amman hafi gagnrýnt bæjarstjórnina harðlega fyrir að leggja af leikskólann Krók sem var búinn að vera starfræktur í 23 ár.

„Þetta var gríðarlega góð stofnum og það var gríðarlegt áfall þegar þessi ákvörðun var tekin,“ segir Páll en eiginkona hans var leikskólastjóri.

„Leikskólamálin hafa verið í bölvuðum ólestri hjá bæjaryfirvöldum. Bæjarstjórnin lagði skólann af en auglýsti síðan eftir starfsfólki. Öllu starfsfólkinu var sagt upp en Grindavíkurbær bauð lærðu leikskólakennurunum vinnu en ætlaði að skilja alla hina eftir. Það kom aldrei til greina. Konan mín kom með mjög góða lausn.

Hún var að vinna hjá Skólum efh. sem var með skóla í Kópavogi sem var tilbúið að taka á móti 40 nemendum. Hún stakk upp á því að það yrði sett ein gámaeining sem hefði leyst málefni Króks á einu bretti en bæjarstjórnin slaufaði því.“

Annar fundur á mánudaginn

Páll segir að það hafi verið gott fyrir íbúana að koma saman og heyra tóninn í hvor öðrum. Hann segir að fólk sé enn í áfalli og að fundurinn hafi ekki eytt neinni óvissu hjá fólki.

„Fólk mun alltaf búa við þessa óvissu á meðan jarðhræringarnar eru í gangi. Fólk er að velta því fyrir sér hvar það eigi að kaupa húsnæði, hvort það eigi að selja íbúðir sínar og hvernig málum verði háttað með forkaupsréttinn.“

Það verður annar íbúafundur næsta mánudag þar sem ríkislögreglustjóri mun fara yfir öryggismálin.

Hluti af bæjarfulltrúum Grindvíkinga á fundinum í dag.
Hluti af bæjarfulltrúum Grindvíkinga á fundinum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is