Grindvíkingar spenna bogann: Staðan „grafalvarleg“

Raddir Grindvíkinga | 12. mars 2024

Grindvíkingar spenna bogann: Staðan „grafalvarleg“

Staða Grindvíkinga á húsnæðismarkaði er grafalvarleg, að mati Ásrúnar Helgu Kristinsdóttur, forseta bæjarstjórnar í Grindavík.

Grindvíkingar spenna bogann: Staðan „grafalvarleg“

Raddir Grindvíkinga | 12. mars 2024

Hraun rann inn í Grindavík í janúar.
Hraun rann inn í Grindavík í janúar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Staða Grindvíkinga á húsnæðismarkaði er grafalvarleg, að mati Ásrúnar Helgu Kristinsdóttur, forseta bæjarstjórnar í Grindavík.

Staða Grindvíkinga á húsnæðismarkaði er grafalvarleg, að mati Ásrúnar Helgu Kristinsdóttur, forseta bæjarstjórnar í Grindavík.

Hún segir Grindvíkinga hafa orðið fyrir mikilli útgjaldaaukningu eftir að þeim var gert að yfirgefa heimili sín vegna jarðhræringa. Lánakjör séu óhagstæð og verðbólga hærri sem leiði af sér háar afborganir.

„Við heyrum dæmi um að Grindvíkingar sem ætla að kaupa húsnæði séu að spenna bogann mjög hátt. Maður hefur verulegur áhyggjur af því hvað gerist í framhaldinu. Er fólk að sigla í gjaldþrot? Þetta er erfið staða,” greinir Ásrún Helga frá.

Biðja um frekari úrræði

Bæjarstjórn Grindavíkur, Félag eldri borgara í Grindavík, Verkalýðsfélag Grindavíkur og Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur hafa sent frá sér samstöðuyfirlýsingu um að frekari stuðningur við Grindvíkinga sé nauðsynlegur.

Þess var farið á leit við yfirvöld að Grindvíkingar nytu sömu kjara og fyrstu kaupendur og fái helmingsafslátt af stimpilgjöldum vegna fasteignakaupa. Beðið var um að heimild yrði veitt til nýtingar á séreignasparnaði við kaup á fasteign líkt og heimilt er fyrir fyrstu kaupendur.

Einnig var óskað eftir því að öllum Grindvíkingum yrði veitt heimild til að sækja um hlutdeildarlán líkt og fyrstu kaupendur.

Ásrún Helga Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar í Grindavík.
Ásrún Helga Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar í Grindavík. Ljósmynd/Grindavíkurbær

„Í miðjum storminum“

„Það hefur margt verið gert en staða okkar á húsnæðismarkaði varðandi íbúðir er grafalvarleg,” segir Ásrún Helga og biður um frekari stuðning. 

Hún hvetur einnig til aukins fyrirsjáanleika fyrir þá sem eru í leiguhúsnæði. Húsnæðisstuðningur varðandi leigu gildir út ágúst og segir hún borðleggjandi að sá stuðningur verði framlengdur.

„Það er verið að ýta okkur út í að taka stórar ákvarðanir en við erum ennþá í miðjum storminum,” segir hún um stöðuna almennt fyrir Grindvíkinga og nefnir dæmi um að barnmargar fjölskyldur hafi þurft að fjárfesta í efstu hæðum greiðslugetu sinnar til að fá hentugt húsnæði. Þetta sé mikið áhyggjuefni.

Hún bendir jafnframt á erfiðan húsnæðismarkaðinn þar sem margir eru um hituna. Erfitt hefur til að mynda reynst að útvega minni íbúðir fyrir einstaklinga og pör.

Reykjanesbær.
Reykjanesbær.

Flytja lögheimilið annað 

Margir eru enn með lögheimili í Grindavík en færst hefur í vöxt að barnafjölskyldur sem eru að þiggja þjónustu í öðrum sveitarfélögum flytji lögheimilið þangað. Spurð segir Ásrún Helga þetta vera nokkra tugi.

„Það er mikilvægt að við sýnum aðhald, sveitarfélagið, og sjáum fram á hvernig við getum haldið okkar góða bæjarfélagi sem lengst hjá okkur. Maður vill ekki missa vonina en samt sem áður þarf maður að vera raunsær um að við sjáum einhverja framtíð áfram í Grindavík. Það er líka óvissa varðandi það og kannski dýrt fyrir þjóðina að ríkið eigi einhvern draugabæ suður með sjó,” segir hún. Ávinningur þjóðarinnar sé að Grindvíkingar öðlist styrk á nýjan leik. 

Tollhúsið við Tryggvagötu.
Tollhúsið við Tryggvagötu.

Hún nefnir að verið sé að byggja upp varnargarða, búið sé að setja upp viðvörunarlúðra, og verið sé að bæta innviði. Slíkt gefi fólki sem vilji snúa aftur í bæinn aukna von.

Eingöngu í Tollhúsinu 

Bæjarskrifstofur Grindavíkur eru núna eingöngu í Tollhúsinu við Tryggvagötu í Reykjavík en þangað til í síðustu viku voru þær líka í Ráðhúsi Reykjavíkur.

Á bæjarstjórnarfundi í dag átti að ræða um skipulag í tengslum við að koma á köldu vatni í Grindavík. Mögulega verður vatninu hleypt á í bænum í þessari viku og myndi það gerast í samvinnu við íbúa.

mbl.is