Kútsjma öruggur sigurvegari í forsetakosningunum í Úkraínu

Kútsjma greiðir atkvæði og hefur afabarn sitt, Roman, sér til …
Kútsjma greiðir atkvæði og hefur afabarn sitt, Roman, sér til trausts og halds. AP

Leonid Kútsjma var endurkjörinn forseti Úkraínu og vann öruggan sigur á keppinaut sínum, Petro Symonenko, í seinni umferð kosninganna í gær. Fældi það kjósendur frá stuðningi við Symonenko, frambjóðanda kommúnista, að hann boðaði afturhvarf til stjórnarhátta sem við lýði voru á tímum Sovétríkjanna sálugu.

Þegar talin höfðu verið 97,37% atkvæða var hlutur Kútsjma 56,17% og Symonenkos 37,90%, samkvæmt tilkynningu yfirkjörstjórnar. Kjörsókn þótti óvenju góð eða 73,8%. Endanlegar niðurstöður kosninganna verða ekki birtar fyrr en seinna í vikunni en kjörstjórnin lýsti Kútsjma samt réttilega kjörinn forseta. Búist hafði verið við sigri Kútsjma, sem er 61 árs, þrátt fyrir megnar óvinsældir með að honum hefur ekkert orðið ágengt við að rétta efnahag landsins af. Beitti hann hræðsluáróðri og sagði landsmönnum að kosningarnar snerust um lýðræðislega framtíð Úkraínu eða afturhvarf til sovéskra stjórnarhátta með hvers kyns höftum, skömmtunum og miðstýringu. Stjórnmálaskýrendur segja hinn örugga sigur Kútsjma leggja honum enn þyngri skyldur á herðar um að vinna Úkraínu út úr efnahagslegu og félagslegu kviksyndi. Fæstir þeirra hafa trú á að honum takist það.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert