2000 ára gamalt snyrtikrem fannst í Lundúnum

Liz Barham, forvörður hjá safninu í Lundúnum, með kremósina.
Liz Barham, forvörður hjá safninu í Lundúnum, með kremósina. AP

Lítil rómversk dós, sem grafin var upp úr rústum rómversks musteris á suðurbakka Thamesár í Lundúnum, reyndist innihalda hvítt krem. Efnið, sem lyktaði af brennisteini, var að mestu ósnert í dósinni en greina má fingrafar upprunalegs eiganda, að sögn forvarða hjá þjóðminjasafninu í Lundúnum. Kremið var enn merkilega rakt og virtist nær óskemmt þótt það hefði legið í 2 þúsund ár grafið í jörðu. Helst er talið að um sé að ræða andlitskem en aðrir hafa giskað á að þetta sé tannkrem eða efni sem smurt var á geitur áður en þeim var slátrað. Verið er að efnagreina kremið en dósin sjálf verður til sýnis í safninu.

Dósin fannst í niðurfalli í rómverska musterinu en þar hefur uppgröftur staðið yfir í rúmt ár. Svo virðist sem dósinni hafi verið komið fyrir þarna vísvitandi fyrir um 2000 árum.

mbl.is