Fogh Rasmussen: leiðtogar ESB taki „skýra ákvörðun“ í stjórnarskrármáli

Anders Fogh Rasmussen.
Anders Fogh Rasmussen. AP

Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, sagði í dag að á væntanlegum leiðtogafundi Evrópusambandsríkja í Brussel í Belgíu, verði leiðtogar aðildarríkjanna að taka „skýra ákvörðun“ um framtíð fyrstu stjórnarskrár Evrópusambandsins, en Frakkar höfnuðu henni í þjóðaratkvæði á sunnudag.

Fogh Rasmussen sagði að þátttakendur á ráðstefnu sambandsins, sem haldin verður dagana 16 - 17. júní, þyrftu að sýna að þeir hefðu ákveðið hvert framhaldið í stjórnarskrármálinu yrði. Öll aðildarríki ESB, sem eru 25 talsins, þurfa að samþykkja stjórnarskrána, eigi hún að taka gildi.

Danski forsætisráðherrann sagði eftir franska „neiið“ á sunnudag ríkti „alvarlegt ástand.“ Hann lagði áherslu á að leiðtogar ESB yrðu að sanna að þeir hefðu stjórn á stöðu mála. „Danir krefjast þess að mjög skýr ákvörðun verði tekin um framhald málsins,“ sagði Fogh Rasmussen. Til stendur að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrármálið í Danmörku í september, en skoðanakannanir hafa sýnt að meirihluti Dana styður stjórnarskrána.

Nokkurt uppnám varð innan ESB árið 1992 þegar Danir höfnuðu Maastricht sáttmálanum, tímamótasáttmála innan ESB. Ári síðar samþykktu Danir þó sáttmálann eftir að hann hafði verið endurskoðaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert