Segir ekkert hæft í því að egypskur efnafræðingur tengist sprengjutilræði

Egypski efnafræðingurinn Magdi Mahmoud al-Nashar.
Egypski efnafræðingurinn Magdi Mahmoud al-Nashar. AP

Innanríkisráðherra Egyptalands segir, að efnafræðingurinn Magdi Mahmoud al-Nashar, sem handtekinn var í Egyptalandi grunaður um aðild að sprengjuárásunum í Lundúnum, tengist ekki hryðjuverkasamtökunum al-Qaeda og vangaveltur í fjölmiðlum um aðild hans að málinu séu tilhæfulausar.

Habib al-Adli, innanríkisráðherra Egyptalands, segir við blaðið Al-Jumhuriyah, að það sé rangt að útsendarar bresku öryggisþjónustunni hafi tekið þátt í að yfirheyra al-Nashar í Kaíró. Breska útvarpið BBC hefur hins vegar eftir heimildarmönnum að breskir leyniþjónustumenn fylgist með yfirheyrslunum.

Egypska innanríkisráðuneytið birti í gærkvöldi hluta af útskrift af yfirheyrslum yfir al-Nashir þar sem hann neitar því alfarið að hafa átt aðild að sprengjutilræðunum. Hann sagðist vera í sumarleyfi í Egyptalandi og allar eigur hans séu í Bretlandi enda ætli hann að fara þangað aftur.

Lögregla á Englandi hefur gert húsleit í húsi í Leeds þar sem al-Nashir býr. Er hann grunaður um að hafa búið til sprengjurnar sem notaðar voru í Lundúnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert