Vöruðu við fleiri hryðjuverkum

Shepherd's Bush lestarstöðin í London var rýmd eftir sprengingu þar …
Shepherd's Bush lestarstöðin í London var rýmd eftir sprengingu þar í gær. AP

Nokkrum klukkustundum áður en þrjár sprengjur sprungu í neðanjarðarlestakerfi Lundúna í gær vöruðu róttækir klerkar múslíma í Bretlandi við fleiri hryðjuverkum. Að sögn bandaríska dagblaðsins The New York Post í dag hótuðu klerkarnir fleiri hryðjuverkum breyti ríkisstjórnin ekki utanríkisstefnu sinni og kalli heim herlið sitt í Írak. Sheikh Omar Bakri Mohammed, sagði í samtali við blaðið, búast við því að hryðjuverkin verði svipuð þeim sem framin voru í Madrid á síðasta ári.

Þrjár sprengingar urðu með stuttu millibili í neðanjarðarlestakerfi Lundúna í gær auk annarrar í strætisvagni um klukkustund síðar. Enginn slasaðist.

Bakri, sem er af sýrlensku bergi brotinn og hefur verið umdeildur síðan honum var veitt hæli í Bretlandi árið 1986, sagði í samtali við The New York Post, að hendur Tonys Blairs, forsætisráðherra Bretlands, væru blóðugar eftir samvinnu hans með bandarískum stjórnvöldum í Afganistan og Írak. Þá taldi hann utanríkisstefnu stjórnvalda hafa vakið reiði á meðal margra ungra manna, sem séu mótfallnir stefnu ríkisstjórnarinnar.

Í dagblaðinu segir að Bakri kalli hryðjuverkamennina, sem flugu tveimur farþegaflugvélum á Tvíburaturnana í New York 11. september árið 2001 hina „glæstu 19“. Þá er greint frá því að honum hafi verið vísað úr landi og hyggist hann flytjast til Asíulands þar sem hann geti iðkað trú sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert