Libby ákærður fyrir aðild að leka á nafni CIA-manns til fjölmiðla

Libby kemur til vinnu í morgun.
Libby kemur til vinnu í morgun. Reuters

Lewis Libby, starfsmannastjóri varaforseta Bandaríkjanna, var í dag ákærður fyrir að hindra framgang réttvísinnar og bera ljúvitni við rannsókn á upplýsingaleka hjá bandarísku leyniþjónustunni, CIA. Karl Rove, nánasti ráðgjafi George W. Bush forseta, var ekki ákærður, en meint aðild hans að málinu er enn til rannsóknar og forsetanum til mikilla trafala.

Libby sagði af sér embætti um leið og ákæran á hendur honum var birt opinberlega. Scott McClellan, talsmaður Hvíta hússins, skýrði frá þessu nú síðdegis. Hann sagði, að Hvíta húsið myndi ekki tjá sig frekar um málið.

Ákæran var gefin út í kjölfar rannsóknar sérstaks saksóknara, Patricks Fitzgeralds, á því hvort Rove, Libby eða einhverjir aðrir starfsmenn forsetaembættisins hafi að yfirlögðu ráði greint fjölmiðlum frá nafni leyniþjónustumannsins Valerie Plame, eða logið að rannsakendum um aðild sín að málinu. Rannsókn Fitzgeralds hefur staðið í tvö ár.

Alls eru ákæruatriðin á hendur Libby fimm. Verði hann fundinn sekur um þau öll gæti hann átt yfir höfði sér allt að 30 ára fangelsi og 1,25 milljóna dala sekt.

Patrick Fitzgerald.
Patrick Fitzgerald. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert