Svíar hætta að styrkja Kínverja og Víetnama

Sænsk stjórnvöld munu í dag tilkynna formlega, að þeim þjóðum sem munu njóta beinna þróunarstyrkja, verði fækkað úr 70 í 33. Meðal þeirra landa, sem ekki fá lengur styrki frá Svíum eru Kína og Víetnam. Ekki stendur til að lækka heildarupphæðina, sem varið er til þróunarstyrkja.

Svíar munu eftirleiðis leggja áherslu á að styrkja lönd í þremur hópum. Í fyrsta hópnum eru 12 ríki í Afríku, Asíu og Suður-Ameríku, sem Svíar vilja taka upp langtímasamvinnu við.

Í öðrum hópnum eru 12 ríki í Afríku, Asíu, Miðausturlöndum og Suður-Ameríku sem þar sem hernaðarástand hefur ríkt eða ríkir enn.

Í þriðja hópnum eru 9 Austur-Evrópuríki, sem Svíar vilja styrkja með tilliti til aukinnar samvinnu Evrópuríkja.

mbl.is