Lyfjaneysla Kennedys sögð óhófleg um tíma

John F. Kennedy.
John F. Kennedy. AP

David Owen, sem er læknir að mennt og fyrrum utanríkisráðherra Bretlands, segir í nýrri bók að lyfjaneysla Johns F. Kennedys, Bandaríkjaforseta, á fyrstu misserum valdatíma hans, hafi verið óhófleg og greinilega haft áhrif á dómgreind hans og getu til að taka ákvarðanir. 

Í bókinni, sem nefnist In Sickness and In Power, fjallar Owen um heilsufar og lækningameðferð sem þjóðarleiðtogar á síðustu öld fengu. Þar á meðal er kafli um Kennedy þar sem Owen segir, að forsetinn hafi verið mun veikari en almennt sé talið. Hann þjáðist af svonefndum Addisonsjúkdómi og þurfti stöðuga meðhöndlun.

Kennedy þjáðist einnig af fleiri sjúkdómum og kvillum. Þegar hann heimilaði svonefnda Svínaflóainnrás á Kúbu árið 1961 var hann með bráðan niðurgang og þvagfærasýking, sem hafði plagað hann lengi, tók sig upp á ný. 

Fjallað er um bókina á fréttavef blaðsins The Times í dag. Þar segir Owen, að ýmsir læknar hafi meðhöndlað Kennedy á þessum tíma og gefið honum lyf en þeir vissu ekki, að Max Jacobson hafði einnig verið kallaður til. Jacobson var nefndur  Dr. Feelgood vegna þess að hann gaf sjúklingum amfetamín og önnur örvandi lyf. Sagnfræðingar hafa lengi velt því fyrir sér hvers vegna Kennedy klúðraði Svínaflóainnrásinni gersamlega og Owen leiðir að því líkur, að lyfjaneysla forsetans hafi verið úr öllu hófi á þessum tíma. 

Owen segir m.a. líklegt, að Jacobson hafi gefið Kennedy amfetamín áður en hann hitti Níkíta Khrústsjov, þáverandi leiðtoga Sovétríkjanna, í Vínarborg árið 1961 en flogið var með Jacobson sérstaklega þangað.

Undir lok ársins tók Hans Kraus við sem líflæknir forsetans. Hann krafðist þess að fá að ráð einn hvernig meðhöndlun forsetans var háttað og hóf m.a. að nota nudd í stað þess að sprauta forsetann með lyfjum. Þá losaði hann sig við Jacobson og sagði við Kennedy, að ef hann frétti af því, að hann léti Jacobson gefa sér sprautur aftur myndi hann segja frá því opinberlega. Enginn forseti, sem sé með fingurinn á „kjarnorkuhnappinum" gæti leyft sér að taka inn efni af þessu tagi.

Þegar Kúbudeilan svonefnda brast á árið 1962 hafði Kennedy náð sér á strik en hann þótti takast á við það mál af mikilli festu og yfirvegun. 

mbl.is

Bloggað um fréttina