Vöknuð úr dái og farin af sjúkrahúsi

Josef Fritzl.
Josef Fritzl. AP

Kerstin, 19 ára gömul dóttir Elisabeht Fritzl, er vöknuð til lífsins og farin af sjúkrahúsi þar sem hún lá í einn og hálfan mánuð. Að sögn talsmanns sjúkrahússins í Amtsetten í Austurríki þarf Kerstin enn á læknismeðferð og sálfræðimeðferð að halda.

Stúlkan var flutt meðvitundarlaus á sjúkrahús 19. apríl og var um tíma ekki hugað líf. Hún var í öndunarvél og var haldið sofandi með lyfjum. Í maí sögðu læknar hins vegar að óhætt þætti að byrja að vekja hana til lífsins.

Kerstin er elst sjö barna, sem Josef Fritzl eignaðist með dóttur sinni en hann hélt dótturinni og þremur börnum hennar föngnum í jarðhýsi. Þrjú börn ól hann upp sjálfur en eitt dó. Málið komst upp þegar Kerstin veiktist. Stúlkan hafði þá búið alla ævi í gluggalausum kjallara ásamt móður sinni og tveimur bræðrum. 

Elisabeth og börn hennar eru nú á geðsjúkrahúsi í nágrenni Amstetten. Josef Fritzl er í gæsluvarðhaldi og bíður ákæru og dóms.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert