Frumkvöðull fellur frá

Michael Debakey.
Michael Debakey. AP

Hjartaskurðlæknirinn og frumkvöðullinn Michael Debakey, sem hlaut heimsfrægð fyrir að hafa þróað hjáveituaðgerð á hjarta, er látinn 99 ára að aldri. Debakey lést í gærkvöldi á sjúkrahúsi í Houston.

Þegar hann fór sjálfur í aðgerð fyrir tveimur árum, þar sem gert var að skemmdri ósæð, beittu læknarnir aðferð sem Debakey þróaði.

Þjóðarleiðtogar og frægar stjörnur voru á meðal þeirra sjúklinga sem Debakey sinnti um ævina.

Hann átti m.a. þátt í því að þróa gervihjörtu og hjartadælur fyrir sjúklinga sem biðu eftir því að fá nýtt hjarta. Þá þróaði hann einnig ýmis mikilvæg áhöld til hjartaskurðlækninga, sem ollu mikilli byltingu.

Þá er honum einnig þakkað að hafa breytt háskólasjúkrahúsinu í Baylor í Houston í þjóðþekkta og virta læknastofnun.

mbl.is

Bloggað um fréttina