Palin næsta forsetaefni?

Sarah Palin
Sarah Palin AP

Vangaveltur eru nú uppi um það meðal fréttaskýrenda í Bandaríkjunum hver staða Söruh Palin, varaforsetaefni John McCain, verði innan Repúblíkanaflokksins nái McCain ekki kjöri í kosningunum í næstu viku. Telja sumir að hún geti jafnvel orðið næsta forsetaefni flokksins en aðrir telja það útilokað. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.

Í grein sem skrifuð er af Alexander Mooney kemur fram að Palin sé mjög umdeild innan flokksins. Hluti hans telji hana veita flokknum einstakt tækifæri til að endurnýja ímynd sína sem hafi beðið mikla hnekki á undanförnum árum. Aðrir telji hana hafa skaðað framboð McCain og að hverfi hún ekki af sjónarsviðinu geti hún stefnt framtíð flokksins í mikla hættu um ófyrirsjáanlega framtíð.

„Hún er greinilega mjög metnaðarfull en þeirri spurningu er ósvarað hvert markmið þess metnaðar sé. Hún vill ná langt en til hvers? Það liggur ekki fyrir hvort hún aðhyllist hugmyndafræði Bush eða Reagans. Hún hugsar ekki upphátt. Hún bara… talar,” sagði íhaldskonan Peggy Noonan í nýlegri grein sinni í Wall Street Journal.

Aðrir áhrifamiklir íhaldsmenn innan flokksins hafa tekið í sama streng, þeirra á meðal David Brooks, George Will, Kathleen Parker og David Frum. Segja þeir jafnvel hættu á að hvatvísi Palin, sem komi fram á kostnað hugmyndafræðilegrar röksemdafærslu, ógni grundvallargildum flokksins.

„Reagan hafði mjög mikla trú á krafti hugmynda en það hefur gætt mótbylgju við slíkar hugmyndir, lýðskrums sem gerir ekki einungis lítið úr frjálslyndri hugmyndafræði heldur hugmyndafræði almennt. Ég óttast að Sarah Palin aðhyllist slíkt,” segir Brooks.

Þá segir Frum að þótt Palin sé vinsæl meðal dyggra stuðningsmanna  flokksins njóti hún ekki mikils fylgis meðal þeirra sem ekki séu jafntryggir flokknum.

Aðrir eru á þveröfugu máli. „Ég vona og býst við að hún taki áfram þátt í stjórnmálum á landsvísu. Hún getur í raun fengið hvert það hlutverk sem hún ætlar sér. Hún nýtur mikil fylgis núna og það kæmi mér á óvart ef hún tæki ekki að sér leiðtogahlutverk innan flokksins á landsvísu,” segir Richard Viguerie, áhrifamikill menningarfrömuður innan flokksins.

Segir hann Palin hafa komið sterka inn sem nýtt og ferskt andlit flokksins bæði með einkalífi sínu og yfirlýsingum. Þá sé hún fulltrúi annars landshluta og annarrar stéttar en hingað til hafi verið ráðandi innan forystusveitar flokksins. 

„Hún hefur aðdráttarafl miðstéttarinnar. Það er kannski dulið en engu að síður mjög áhrifamikið,” segir Fred Barnes, ritstjóri Weekly Standard. „Hvort sem þeir gera sér grein fyrir því eða ekki þá eiga repúblíkanar mikil verðmæti í Palin. Láti þeir hana hverfa eftir kosningarnar verða það sorgleg mistök.” 

mbl.is

Bloggað um fréttina