Finnar dragi úr losun um 80% fram til ársins 2050

Algengustu gróðurhúsalofttegundirnar eru vatnsuppgufun, þá koltvísýringur (CO2), köfnunarefnistvíildi (NO2), og …
Algengustu gróðurhúsalofttegundirnar eru vatnsuppgufun, þá koltvísýringur (CO2), köfnunarefnistvíildi (NO2), og metangas. Reuters

Finnsk stjórnvöld hafa sett sér það markmið að draga úr losun gróðurhúslofttegunda um 80% fram til ársins 2050 til þess að draga út hættunni á yfirvofandi loftlagsbreytingum. Miðað er við losun frá árinu 1990.

Ráðamenn í Finnlandi leggja mikla áherslu á að iðnveldi heims stilli saman strengi sína með það að markmiði að hindra að hlýnun jarðar verði meiri en tvær gráður.

Til að ná settu marki hyggjast Finnar leggja aukna áherslu á endurnýjanlegar orkuauðlindir, stuðla að tækninýjungum sem koma að gagni, endurskoða skattkerfið sem og orkustaðla fyrir nýbyggingar. Jafnframt hyggjast finnst stjórnvöld auka fræðslu meðal almennings um hvaða leiðir hann getur farið til þess að draga úr losun.

Finnar eru sem kunnugt er aðilar að Evrópusambandinu, en það hefur sett sér það markmið að draga úr losun gróðurhúslofttegunda um 20% frá árinu 1990 til ársins 2020.

Ráðamenn í ESB hafa raunar lýst því yfir hækka mætti markið í 30% komist menn að samkomulagi um það á næstu loftlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin verður í Kaupmannahöfn í desember. Margir binda vonir til þess að á komandi ráðstefnu takist að ná víðtæku samkomulagi þjóða sem leysi Kýótó-bókunina af hólmi en hún rennur út árið 2012.


mbl.is

Bloggað um fréttina