Öryggisráðið klofnar

Frá fundi Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.
Frá fundi Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Reuters

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna klofnaði í gær í afstöðu sinni til ástands mála í Sýrlandi, en þar hafa öryggissveitir barið niður mótmæli með hörku. Rússar segja að afskipti Vesturveldanna geti hrundið af stað borgarastyrjöld.

Vaxandi ágreiningur er  innan ráðsins um hvernig höndla skuli uppreisnarástandið sem víða hefur geisað í Mið-Austurlöndum og í Arabaheiminum.

Frakkar fóru fram á harðar aðgerðir gegn Sýrlendingum ef forseti landsins, Bashar al-Assad, neitar að binda enda á ofbeldi hers landsins gagnvart óbreyttum borgurum. Bandaríkjamenn segja að Assad verði „að breyta um stefnu nú þegar“ og láta af notkun skriðdreka og vopna.

Vestrænar þjóðir kröfuðust þess að haldinn yrði opinn fundur í Öryggisráðinu eftir að Rússar og Kínverjar stöðvuðu tillögu að yfirlýsingu þar sem ofbeldið í Sýrlandi var fordæmt.

Eftir að hafa stöðva tillöguna fullyrtu Rússar, sem eru nánir bandamenn ríkisstjórnar Assads, að ástandið í landinu væri ekki ógn við alþjóðlegan frið og því væri ekki þörf á sértækum aðgerðum að hálfu Öryggisráðsins. Fulltrúi Rússa í ráðinu sagði að eina ógnin fælist í afskiptum Vesturveldanna af ástandi mála og varaði þjóðir heims við að taka afstöðu með eða á móti.

Kínverjar og Rússar eru einnig afar mótfallnir loftárásum NATO-ríkja í Líbíu og segja að með því sé verið að taka afstöðu í innanríkisdeilum.

Fulltrúi Frakka í Öryggisráðinu, Gerard Araud, sagði að ef mál héldu áfram að þróast með þessum hætti í Sýrlandi, þá myndu Frakkar, ásamt öðrum, grípa til aðgerða til að auka þrýsting á ríkisstjórn Sýrlands. Hann sagði að sýrlensk yfirvöld yrðu að bregðast við kröfu þjóðarinnar um aukið lýðræði.

Þjóðverjar hafa lýst því yfir að þeir styðji slíkar aðgerðir.

Susan Rice, fulltrúi Bandaríkjanna í Öryggisráðinu, segir að Assad verði að hlusta á kröfur fólksins í landinu og sagði að alþjóðasamfélagið verði að bregðast við ofbeldinu í landinu.

Fulltrúi Sýrlands í ráðinu, Bashar Jaafari, sagði að orð Rice væru „Hollywood tilraun“.

Talið er að um 400 manns hafi látið lífið í mótmælunum í Sýrlandi frá því um miðjan mars. Mannréttindasamtök segja töluna vera hærri. mbl.is

Bloggað um fréttina