56 handteknir í London

Vilhjálmur prins og Kate Middleton veifa mannfjöldanum af svölum Buckingham-hallar.
Vilhjálmur prins og Kate Middleton veifa mannfjöldanum af svölum Buckingham-hallar. DARREN STAPLES

Breska lögreglan handtók 56 manns í Lundúnum í dag í tengslum við brúðkaup Vilhjálms prins og Kate Middleton. Í flestum tilfellum var um minniháttar afbrot að ræða en öryggisgæsla í kringum brúðkaupið var meiri en við nokkurn atburð í Bretlandi til þessa að sögn Reuters fréttaveitunnar.

Um 5.000 lögreglumenn voru við skyldustörf í tengslum við brúðkaupið. Verkefni þeirra var ekki síst að hafa stjórn á þeim gríðarlega mannfjölda sem fyllti miðborg Lundúna í tilefni af atburðinum. Þá stóðu um eitt þúsund hermenn vörð meðfram veginum sem liggur frá Westminister Abbey og að Buckingham-höll þar sem brúðhjónin fóru um í hestvagni að lokinni hjónavígslunni.

Flestir hinna handteknu höfðu gerst sekir um minniháttar óspektir á almannafæri en nokkrir voru handteknir vegna mótmæla gegn konungsfjölskyldunni. Breskir lýðveldissinnar héldu útifundi á nokkrum stöðum í borginni á meðan á brúðkaupinu stóð og hafði lögregla eftirlit með þeim.

Lögregluyfirvöld telja að um hálf milljón manna hafi fylgst með hinum nýgiftu hjónum á svölum Buckingham-hallar þar sem þau veifuðu mannfjöldanum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert