Föðurlandsvinalögin framlengd

Obama skrifaði undir lögin frá Frakklandi með aðstoð fjarstýrðrar undirskriftarvélar.
Obama skrifaði undir lögin frá Frakklandi með aðstoð fjarstýrðrar undirskriftarvélar. Reuter

Forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, skrifaði í nótt undir frumvarp þess efnis að ákveðnir viðaukar við föðurlandsvinalögin, the patriot act, verði framlengd.

Lögin voru sett í kjölfar árásanna á tvíburaturnana 11. september  2001 og munu gilda þar til annað verður ákveðið. Hins vegar þarf að endurnýja ákveðnar greinar þeirra á fjögurra ára fresti.

Greinarnar eru þrjár og fjallar ein þeirra um rafrænt eftirlit með einstaklingum, en hún gerir dómstólum kleyft að leyfa eftirlit með einstaklingi, hvar svo sem hann er, en áður urðu yfirvöld að sækja um leyfi fyrir að fylgjast með hverri samskiptatengingu og/eða tæki fyrir sig.

Önnur greinin fjallar um dómsúrskurði til að fara í gegnum og leita í viðskiptagögnum og sú þriðja um eftirlit með erlendum einstaklingum sem þykja grunsamlegir en hafa þó ekki staðfest tengsl við hryðjuverkahópa.

Föðurlandsvinalögin hafa verið afar umdeild og ekki voru allir á eitt sáttir um að framlengja gildistíma lagagreinanna þriggja. Þykir sumum of langt gengið á mannréttindi fólks á meðan aðrir vildu festa þær varanlega í lög.

Obama var í Frakklandi þegar hann fékk lögin til undirritunnar og notaði hann svokallaða undirskriftarvél, sem heldur á penna fyrir hann og hermir nákvæmlega eftir rithönd forsetans, til að skrifa undir frá Evrópu.

mbl.is