Egypska þingið ólöglega kjörið

Mótmælendur gegn stjórn hersins í Egyptalandi.
Mótmælendur gegn stjórn hersins í Egyptalandi. Reuters

Æðsti stjórnlagadómstóll Egyptalands úrskurðaði í dag að þing landsins, þar sem íslamistar hafa verið í meirihluta, sé ólöglega kjörið. Niðurstaðan opnar á það að egypski herinn taki á ný yfir löggjafarvaldið í landinu samkvæmt fréttaveitunni AFP.

„Stjórnlagadómstóllinn staðfesti ýtarlega í úrskurði sínum að þingkosningarnar hefðu ekki verið í samræmi við stjórnarskrána og að samsetning þingsins hafi verið ólögleg síðan í kosningunum,“ er haft eftir opinberu fréttaveitunni MENA í Egyptalandi.

Þá er haft eftir ónafngreindum heimildarmanni innan hersins að forystumenn hans vilji ekki fá löggjafarvaldið aftur til sín en það sé engu að síður í samræmi við úrskurð dómstólsins og lög landsins.

Fram kemur í frétt bandaríska dagblaðsins Los Angeles Times að úrskurður stjórnlagadómstólsins sé á þá leið að kjör þriðjungs þingmanna hafi ekki verið lögum samkvæmt sem þýði að hægt sé að leysa þingið upp þar til nýtt hefur verið kjörið.

Þá segir að ekki sé ljóst hvenær og hvernig nýjar þingkosningar kunni að fara fram. Vinnu við nýja stjórnarskrá hafi verið frestað vegna pólitískra deilna og óvíst sé með hvaða hætti áframhaldandi stjórnmálaþróun í landinu eigi eftir að verða.

Forseti egypska þingsins, Saad al-Katatni, hafði fyrir úrskurðinn sagt að enginn utanaðkomandi aðili hefði vald til þess að leysa upp þingið samkvæmt AFP og það væri þingsins að meta með hvaða hætti úrskurði dómstólsins yrði framfylgt.

Forsetakonsingar fara fram í Egyptalandi um helgina en stjórnlagadómstóllinn úrskurðaði einnig í dag að ólögmætt væri að útiloka Ahmed Shafiq, fyrrverandi forsætisráðherra landsins, frá þátttöku í þeim en lög höfðu verið sett sem bönnuðu fyrrverandi ráðamönnum landsins að gegna opinberum embættum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert