Strauss-Kahn fékk ekki lögbann

Dominique Strauss-Kahn.
Dominique Strauss-Kahn. AFP

Dómstóll í Frakklandi hafnaði í dag kröfu Dominique Strauss-Kahn, fyrrverandi framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um að lögbann yrði sett á bók argentísku skáldkonunnar Marcelu Iacub, þar sem hún segir frá ástarsambandi sínu við Strauss-Kahn.

Strauss-Kahn fór fram á 100.000 evrur í skaðabætur frá Iacub og útgáfufyrirtæki hennar, auk sömu upphæðar frá tímaritinu Le Nouvel Observateur sem birti úrdrátt úr bókinni.

Iacub var gert að greiða honum 50.000 evrur í miskabætur og að auki þarf bréfmiði að fylgja hverri bók með útskýringum. Ekki liggur fyrir hvað á að standa á miðanum, en ljóst er að þetta fyrirkomulag kemur til með að fresta dreifingu bókarinnar því til stóð að hún kæmi í verslanir á morgun.

Þá þarf tímaritið að greiða Strauss-Kahn 25.000 evrur og birta dómsúrskurðinn í næsta tölublaði sínu.

Fríða og dýrið

Bókin heitir Belle et bete á frummálinu, eða Fríða og dýrið og þar greinir Iacub frá stormasömu ástarsambandi þeirra, sem hún segir hafa staðið yfir á tímabilinu janúar til ágúst í fyrra, á sama tíma og hann átti í málaferlum vegna ásakana um kynferðisbrot.

Strauss-Kahn segir bókina „andstyggilega og fulla af rangfærslum“ og að tilgangurinn með henni sé að eyðileggja einkalíf hans. Hann segir að markmið Iacub sé að græða fé með því að hafa að skotspóni mann sem sé þegar troðinn niður í svaðið.

Frétt mbl.is: Segir bókina viðbjóðslega

Bókin umdeilda.
Bókin umdeilda. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert