Ósamþykktir mjaðmaliðir settir í Frakka

Franskir skurðlæknar að störfum.
Franskir skurðlæknar að störfum. AFP

Franskir skurðlæknar hafa sett ósamþykkta mjaðmaliði í um 650 manns. Liðirnir samræmast ekki kröfum Evrópusambandsins.

Heilbrigðisyfirvöld í Frakklandi segja enga ástæðu til að telja liðina hættulega heilsu fólks en skurðlæknarnir sem hlut eiga að máli hafa verið beðnir að kanna líðan sjúklinga sinna, m.a. að mynda þá.

Rannsókn er hafin á framleiðanda mjaðmaliðanna, fyrirtækinu Ceraver. Hafa um 1000 liðir verið teknir úr umferð á meðan rannsókn stendur.

Fyrirtækið Ceraver er annar stærsti framleiðandi gerviliða í Frakklandi og árlega eru um 3.000 gerviökklar, mjaðmir, hné og axlaliðir frá fyrirtækinu settir í Frakka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert