Telja eðlilegt að kaupa vændi af fórnarlömbum mansals

Einn af hverjum sjö karlmönnum í Danmörku telur ekkert rangt við að kaupa vændi af konum sem eru fórnarlömb mansals. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri könnun sem birt er í Politiken.

Manu Sareen, jafnréttisráðherra, segir það valda áhyggjum hversu hátt hlutfall karlmanna sjái ekkert athugavert að kaupa vændi af konum sem eru fórnarlömb mansals.

„Við erum að tala um þrælahald. Konur sem eru barðar og neyddar í vændi. Þetta er birtingamynd þrælahalds nútímans,“ segir Sareen í viðtali við Politiken.

Danski þjóðarflokkurinn, Dansk Folkeparti, hvetur þá sem kaupa vændi í Danmörku til þess að velja danskar vændiskonur frekar en konur sem hafa komið til landsins í gegnum mansal.

Á fréttavef Berlingske er einnig fjallað um könnunina og rætt við talskonu Danska þjóðarflokksins.

Talskona jafnréttismála hjá Danska þjóðarflokknum, Pia Adelsteen, hvetur vændiskaupendur til þess að forðast vændiskonur sem tali austur-evrópsk tungumál og velja frekar danskar konur. Með þessu sé hægt að koma í veg fyrir að vændi sé keypt af konum sem eru fórnarlömb mansals. Hún segir að það þýði ekki að reyna að banna vændi því það eina sem hefst upp úr því sé að vændið færist inn í skúmaskot. Slíkt þýði að erfiðara sé að veita vændiskonum þá aðstoð sem þær þurfi.

Hins vegar verði að koma í veg fyrir mansal og það sé meðal annars gert með því að hvetja menn til þess að kaupa ekki vændi af útlendum konum. Adelsteen segir hins vegar ekki hægt að banna kynlífskaup af konum sem eru fórnarlömb mansals enda geti verið erfitt að meta hvort konur eru fórnarlömb mansals eða eru af fúsum og frjálsum vilja í vændi. Það geti reynst erfitt fyrir vændiskaupendur að finna út úr því hvort viðkomandi kona hefur komið af fúsum og frjálsum vilja eða verið flutt mansali.

mbl.is

Bloggað um fréttina