3000 krónur urðu að 83 milljónum

Norskur maður græddi margar milljónir á að fjárfesta í bitcoin …
Norskur maður græddi margar milljónir á að fjárfesta í bitcoin árið 2009. GEORGE FREY

Norskur maður sem keypti rafræna gjaldmiðilinn bitcoins fyrir tæpar 3.000 krónur eða 24 dollara árið 2009, hafði tök á því að kaupa sér íbúð í miðbæ Óslóar fyrir peninginn vegna gífurlegra hækkana á gengi gjaldmiðilsins.

Bitcoin er stafrænn gjaldmiðill sem var búinn til árið 2009 af Satoshi Nakamoto. Þessum gjaldmiðli er stjórnað með dreifstýrðu forriti. Bitcoin-kerfið starfar utan allra bankakerfa og tryggir algjöra „bankaleynd“ bæði um hvaða viðskipti fólk stundar sín á milli og hvað hver notandi kerfisins á margar „myntir“. Gengi bitcoin sveiflast eins og annarra gjaldmiðla. Segja má að bankakrísan á Kýpur hafi hleypt af stað bitcoin-æði sem varð til þess að gjaldmiðillinn nærri þrefaldaðist í verði á einum mánuði.  

Keypti íbúð á rúma 53 milljónir íslenskra króna

Árið 2009, ákvað Kristoffer Koch að fjárfesta smávægilega í nýja gjaldmiðlinum sem hann kynntist vegna rannsóknarverkefnis. Maðurinn sem er nú 29 ára gamall verkfræðingur hafði steingleymt litlu fjárfestingunni sinni þangað til í apríl á þessu ári þegar hann las grein um velgengi gjaldmiðilsins. 

Þegar hann kannaði stöðuna, sá hann að verðmæti fjárfestingarinnar hefði hækkað verulega og var nú rúmlega 83 milljón króna virði, eða um 690 þúsund dollara. Kristoffer eyddi heilum degi í að reyna muna lykilorðið sitt til að komast inná svæðið sitt. Hann græddi um 22 milljónir eða 186 þúsund dollara á að selja einn fimmta hluta gjaldeyrisins. 

Eftir að hafa greitt 28% af gjaldeyrinum í skatta, var dugði afgangurinn til að kaupa íbúð og gera hana upp í miðbæ Óslóar, sem telst með dýrari borgum. Íbúðin kostaði rúma 53 milljónir íslenskra króna.

„Ég hefði ekki getað ímyndað mér í mínum villtustu draumum að gjaldmiðilinn hefði vaxið svona mikið,“ segir Kristoffer Koch. 

mbl.is