Par í haldi vegna stúlkumorðs í Svíþjóð

Frá Karlskrona í Suður-Svíþjóð.
Frá Karlskrona í Suður-Svíþjóð. mbl.is/wikipedia

Lögregla í Karlskrona í Suður-Svíþjóð hefur handtekið karl og konu sem grunuð eru um hrottalegt morð á átta ára gamalli stúlku. Foreldrar hennar eru í útlöndum og vita ekki enn um morðið.

Lögreglan kom að stúlkunni alvarlega særðri og þungt haldinni í fyrrakvöld  eftir að hafa fengið ábendingar um að ekki væri allt með felldu í blokkaríbúð í Karlskrona. Hún var flutt með hraði á spítala í Blekinge en þar var hún úrskurðuð látin.

Komið er í ljós, að lögregla lét félagsþjónustuna í Karlskrona fyrir páska vita af því að grunur  léki á að ekki væri allt með felldu í heimilishaldinu og að grunsemdir væru um illa meðferð barnsins á heimilinu. Aðhafðist þjónustan þó ekkert í málinu, lagði það til hliðar. Af þeim sökum hefur bæjarstjórnin kært til opinberrar eftirlitsstofnunar með velferðarþjónustu sveitarfélaga.

Parið, sem er í haldi lögreglu, 31 árs karlmaður og þrítug kona, bjuggu í íbúðinni sem stúlkan fannst í. Þau eru grunuð um að vera völd að dauða stúlkunnar. Þau eru sögð tengjast henni en þó ekki vera foreldrar hennar.

„Þetta eru ekki foreldrar hennar, þeir eru erlendis og hafa ekki verið látnir vita,“ sagði  Lotta Hansson hjá lögreglunni í Blekinge við fréttastofuna TT. Og við sænska sjónvarpið bætti hún við: „Okkur hefur ekki enn tekist að hafa uppi á þeim“.

Lögreglan hefur hvorki viljað tjá sig um hvers eðlis áverkar á stúlkunni voru né um parið sem í haldi hennar er. Í Aftonladet segir þó, að á föstudaginn langa hafi nágranni orðið samferða stúlkunni í lyftu hússins og tekið eftir því að hún var öll blá og marin. Einnig hafi hún verið meidd á fótum því hún hefði átt afar erfitt með gang. Grunaði hana að áverkana hefði hún hlotið í íbúðinni og lét lögregluna vita.  

Stúlkan kom í fyrra til Svíþjóðar sem flóttamaður og fékk framan af gott viðurværi. Á verri veg fór hins vegar þegar ættingja hennar, karlmanninum handtekna, var fengin umsjá hennar í janúar sl. Foreldrar hennar eru taldir vera í Palestínu og á hádegi í dag að sænskum tíma hafði ekki enn tekist að hafa uppi á þeim.

Talsmaður Karlskronabæjar segir að starfsmaðurinn sem átti að annast ábendinguna frá lögreglunni með því að fara í heimsókn í íbúðina fái ekki framar að fjalla um mál af þessu tagi. Þá segir talsmaðurinn að félagsþjónusta Karlskrona hafi brugðist stórlega í störfum sínum. Fari nú í gang gagnger skoðun á starfseminni til að bæta megi hana og koma í veg fyrir að mál sem þetta endurtaki sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert