Lögregla skaut átta ára stúlku til bana

Aðstandendur stúlkunnar á leið í jarðarför hennar.
Aðstandendur stúlkunnar á leið í jarðarför hennar. AFP

„Hættið að myrða okkur“ var meðal fjölmargra slagorða sem sjá mátti á mótmælaspjöldum í borginni Rio de Janeiro í Brasilíu þegar ofbeldi lögreglunnar í garð minnihlutahópa var mótmælt. Morð lögreglunnar á átta ára gamalli stúlku varð til þess að íbúar gengu fylktu liði um götur borgarinnar. BBC greinir frá. 

Stúlkan, Ágatha Vitória Sales Félix, var á göngu með móður sinni þegar hún var skotin til bana í bakið. Mæðgurnar voru á ferð í einu fátækasta hverfi borgarinnar á föstudaginn síðasta. 

Vitnum og lögreglunni ber ekki saman um hvernig það atvikaðist að lögreglan hleypti af skoti sem hafnaði í baki stúlkunnar. Vitni segja að lögreglan hafi reynt að skjóta mann á bifhjóli sem hafi ekki verið vopnaður. Lögreglan fullyrðir að hún hafi verið að verjast árás þegar skotið fór inn í bíl þar sem stúlkan var farþegi. 

Frá því í janúar fram í ágúst hafa 1.249 manns látist í sambærilegum árásum lögreglu. Ágatha var fimmta barnið sem deyr í slíkum átökum. 

Frá því Wilson Witzel tók við embætti ríkisstjóra í janúar hafa sífellt fleiri einstaklingar látist í fátækustu hverfum borgarinnar. Hann er sagður standa á bak við harkalegar aðgerðir í garð þessara hópa.  

Mótmælendum ofbýður ofbeldi lögreglunnar í garð fólks sem býr í …
Mótmælendum ofbýður ofbeldi lögreglunnar í garð fólks sem býr í fátækustu hverfum borgarinnar. AFP
mbl.is