Fengu 1,5 milljón fyrir meðgönguna

Flestar kvennanna nefna fjárþörf sem ástæðu fyrir því að þær …
Flestar kvennanna nefna fjárþörf sem ástæðu fyrir því að þær taka að sér að ganga með börn fyrir ókunnuga. AFP

Konur sem taílenska lögreglan hefur yfirheyrt vegna ólöglegrar staðgöngumæðrunar segjast hafa fengið greiddar 12.500 Bandaríkjadali, 1,5 milljón króna, fyrir að ganga með barn fyrir japanskan mann.

Í síðustu viku var greint frá því að Japaninn á að minnsta kosti fimmtán barna sem staðgöngumæður fæddu í Taílandi. Maðurinn, sem gengur undir nafninu Jack, er farinn til Japans en sendi lögreglunni lífsýni svo hægt væri að kanna hversu mörg börn hann ætti í Taílandi.

Níu smábörn fundust hjá fóstrum í Bankok og setti lögreglan af stað rannsókn á mögulegu mansali og dökkum hliðum staðgöngumæðrunar í landinu.

Enn á eftir að yfirheyra sex konur sem gengu með barn fyrir manninn en þær fimm sem þegar hefur verið rætt við segja að samningur hafi komist á milli þeirra og mannsins í gegnum skrifstofur. Ástæðan er í öllum tilvikum sú sama hjá konunum, fjárþörf. 

Eftir að rannsókn hófst á þessum málum í Taílandi er talið að tugir ef ekki hundruð útlendra para bíði nú í lausu lofti um hvort þau fá börnin sem þau hafa keypt af staðgöngumæðrum með ólöglegum hætti í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert