70% Norðmanna vilja ekki í ESB

Sjö af hverjum tiu Norðmönnum vilja ekki ganga í Evrópusambandið samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar. Um 20% vilja hins vegar ganga í sambandið en aðrir eru óákveðnir. Könnunin var gerð af fyrirtækinu Sentio fyrir norsku dagblöðin Nationen og Klassekampen.

Fram kemur í frétt Nationen að skoðanakannanir hafi sýnt stöðugan meirihluta gegn inngöngu í Evrópusambandið undanfarinn áratug. Fyrir vikið leggi samtök andstæðinga inngöngu í sambandið, Nei til EU, meiri áherslu í dag á andstöðu við aðild Norðmanna að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) og vinni að því að fá stéttarfélög til þess að taka afstöðu gegn honum. Þrjú stéttarfélög hafi þegar tekið upp þá stefnu að tengsl Noregs við innri markað Evrópusambandsins verði ekki byggð á EES-samningnum.

Greint er frá því að Jonas Gahr Støre, formaður norska Verkamannaflokksins, hafi ritað langa grein í Klassekampen nýverið þar sem hann hafi varað við því að segja EES-samningnum upp. Haft er eftir Kathrine Kleveland, formanni Nei til EU, að greinina hefði hann ekki skrifað nema hann hafi talið sig tilneyddan. Hins vegar kemur fram í fréttinni að meirihluti Norðmanna vilji samkvæmt skoðanakönnunum halda í EES-samninginn.

mbl.is