„Okkur liggur ekkert á“

John Kerry utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
John Kerry utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna segir að það liggi ekki á að ná kjarnorkusamkomulagi við Írana og þar með létta á viðskiptabanninu sem ríkir gegn landinu.

Ef samkomulag næst fyrir miðnætti í Bandaríkjunum, getur þingið afgreitt málið á aðeins 30 dögum. Takist það hins vegar ekki mun það taka 60 daga.

„Við erum í þessum viðræðum og okkur miðar hægt og rólega áfram,“ sagði Kerry á blaðamannafundi í Vín í Austurríki í dag. „Við munum þó ekki sitja við samningaborðið að eilífu, og ef við náum ekki saman um stóru atriðin, þá munu viðræðunum ljúka strax.“

Telur Kerry að ef til samkomulags kemur, verður það að vera til langs tíma. „Þetta er ekki til að kaupa okkur nokkra daga, vikur eða mánuði. Þetta er til frambúðar næstu áratugina. Það er markmiðið okkar hérna.“

Javad Zarif, sem fer fyrir írönsku samninganefndinni, segir mikinn vilja vera til staðar hjá Írönum til að komast að samkomulagi. Á Twitter-síðu sína skrifaði hann í dag. „Trúið mér, þú skiptir ekki um hest í miðri á.“

Franski utanríkisráðherrann, Laurent Fabius, er ekki jafnbjartsýnn og bandaríski kollegi sinn. Hann mun ekki taka þátt í viðræðunum næstu daga. „Mér finnst hlutirnir ekki vera að stefna í rétta átt,“ sagði Fabius í dag.

Federica Mogherni, talsmaður Evrópusambandsins í utanríkismálum, segir viðræðurnar hafa verið gagnlegar en oft á tímum hafi hiti verið í mönnum. 

Deila aðilanna snýr að kjarnorkuáætlun Írana. Vestræn ríki vilja sjá til þess að Íranir geti ekki framleitt kjarnorkusprengju næsta árið. Íranar segja sjálfir áætlunina vera í friðsamlegum tilgangi.

Sjá frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert