3,4 milljónir fyrir viðtal

Yanis Varoufakis
Yanis Varoufakis AFP

Ítalskir stjórnmálamenn eru ævareiðir eftir að það kom í ljós að ítalska ríkissjónvarpið, RAI, greiddi fyrrverandi fjármálaráðherra Grikklands, Yanis Varoufakis 24 þúsund evrur, sem jafngildir 3,4 milljónum króna, fyrir 22 mínútna langt viðtal.

Það þýðir að hann fékk yfir þúsund evrur á mínútu í tímakaup auk þess sem RAI greiddi fyrir flugmiða á fyrsta farrými, að því er fram kemur á blggi Varoufakis sjálfs.Viðtalið var birt þann 27. september sl.

Varoufakis segir að hann birti upplýsingar um hvað hann fái greitt fyrir að koma fram í fjölmiðlum vegna ásakana um að hann hafi halað inn háar fjárhæðir eftir að hafa sagt af sér ráðherraembætti í júlí.

Á blogginu birtir hann tuttugu atburði þar sem fékk aðeins greiddan flugmiða á almennu farrými og þrjá þar sem hann hafi fengið greiddar 500-1700 evrur fyrir.

En tvennt stendur upp úr: fyrrnefnt viðtal við RAI og ráðstefna í Singapúr þar sem hann fékk greiddar 28.800 evrur, sem svarar til 4,1 milljónar króna.

Renato Brunetta, leiðtogi ítalska stjórnmálaflokksins Forza Italia (FI) gagnrýndi greiðsluna harðlega á ítalska þinginu í morgun og sagði hana fáheyrða og grafalvarlega.

„Greiða Ítalir áskrift að RAI til þess að greiða Varoufakis? Ég vona ekki, skrifaði talskona FI, Mara Carfagna á Twitter.

RAI segir að haft hafi verið samband við Varoufakis af framleiðslufyrirtækinu Endemol sem framleiðir þættina sem hann kom fram í.

Varoufakis kom fram í klukkustundar löngum umræðuþætti á BBC þremur dögum fyrr og fékk ekkert greitt fyrir annað en flugmiða á almennu farrými.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert