Þúsund látist af völdum lögreglu

The Counted er rannsóknarverkefni blaðamanna Guardian, sem hyggjast skrásetja hvert ...
The Counted er rannsóknarverkefni blaðamanna Guardian, sem hyggjast skrásetja hvert einasta dauðsfall af völdum lögreglu í Bandaríkjunum árið 2015. AFP

Þúsund manns hafa verið drepnir af lögreglu í Bandaríkjunum á þessu ári samkvæmt teljara Guardian , sem fylgist með þróun mála vestanhafs undir yfirskriftinni The Counted . Nýjasta dauðsfallið á listanum átti sér stað þegar lögregluþjónar skutu á mann á sunnudag eftir að hann beindi að þeim leikfangabyssu.

Atvikið átti sér stað þegar verið var að draga á brott bifreiðar sem höfðu tekið þátt í svokölluðu „sideshow“, en orðið er notað yfir það þegar ökumenn hafa samráð um að loka fyrir umferð með bílum sínum og framkvæma margs konar og oft ólöglegar brellur.

Lögregla skaut á manninn þegar hann nálgaðist með það sem virtist vera vopn í hendi, en seinna kom í ljós að um eftirlíkingu var að ræða. Samkvæmt lögregluyfirvöldum í Oakland beindi maðurinn gervivopninu að lögreglumönnunum.

The Counted , rannsóknarverkefni Guardian, miðar að því að skrásetja öll dauðsföll sem verða af völdum lögreglu í Bandríkjunum árið 2015. Meðal þeirra atriða sem eru skráð eru kynþáttur, aldur og kyn hins látna, og hvernig dauða hans bar að.

Það sem af er ári hefur lögregla vestanhafs skotið 883 til bana. Þá hafa 47 dáið eftir að hafa verið skotnir með rafbyssu, 33 eftir að hafa verið keyrðir niður með ökutæki lögreglu og 36 hafa dáið í haldi lögreglu. Þá lést einn eftir að hafa hlotið höfuðhögg í átökum við lögregluþjón.

Bandarísk stjórnvöld gefa ekki út yfirlit yfir dauðsföll af völdum lögreglu en samkvæmt tölfræði Guardian deyja 3,1 af þeim sökum á degi hverjum. The Counted var hrundið úr vör 1. júní sl., þegar 464 dauðsföll höfðu átt sér stað.

Af þeim þúsund sem nú hafa dáið voru 198 óvopnaðir, en í 59 tilvikum er óvíst hvort viðkomandi báru vopn.

Ítarlega frétt Guardian um þúsundasta dauðsfallið er að finna hér og hér má finna vefsvæði The Counted .

mbl.is

Bloggað um fréttina