Grunaðir um fjöldamorð í Ascq

Liðsmenn 12. SS-Panzer-Division Hitlerjugend voru flestir sóttir í Hitlersæskuna, ungmennahreyfingu …
Liðsmenn 12. SS-Panzer-Division Hitlerjugend voru flestir sóttir í Hitlersæskuna, ungmennahreyfingu Nasistaflokksins. Bundesarchiv/Wilfried Woscidlo

Þýsk yfirvöld hafa gert húsleitir á heimilum fyrrverandi liðsmanna SS sveita nasista sem grunaðir eru um stríðsglæpi, m.a. þátttöku í morðum á almennum borgurum í Frakklandi árið 1944.

Um er að ræða þrjá menn á níræðisaldri sem tilheyrðu sveit Hitlersæskunnar innan SS, sem hefur verið sökuð um að hafa myrt 86 í bænum Ascq í norðurhluta Frakklands.

Að sögn Andreas Brendel, sem fyrir rannsóknum á stríðsglæpum nasista í North Rhine-Westphalia, nær athugunin á meintum glæpum mannanna einnig til ótilgreindra stríðsglæpa sem framdir voru milli apríl 1944 og maí 1945.

„Við höfum einnig gert leit á heimilum annarra einstaklinga og lagt hald á skjöl sem tengjast sveit Hitlersæskunnar og rannsókn Ascq-morðanna, en þessir einstaklingar eru aðeins vitni á þessum tímapunkti og liggja ekki undir grun,“ segir Brendel.

Aðfaranótt 1. apríl 1944 voru 86 myrtir í Ascq í hefndarskyni fyrir árás á liðsmenn Hitlersæsku-sveitarinnar. Grunuðu hafa neitað að hafa tilheyrt sveitinni og átt þátt í morðunum en vísbendinga er leitað í þeim skjölum sem lagt hefur verið hald á.

Verði það niðurstaða rannsóknarinnar að gefa út ákæru á hendur grunuðu þarf að meta hvort þeir eru nægilega heilsuhraustir fyrir réttarhöld.

Brendel sagði tilgang rannsóknarinnar fyrst og fremst að varpa ljósi á hvað átti sér stað. Áður fór hann fyrir rannsókn á fjöldamorði nasista á 642 einstaklingum í franska bænum Oradour-sur-Glane. Því máli var vísað frá dómstólum vegna skorts á sönnunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert