Stunginn til bana á heimili flóttafólks

AFP

Sænska lögreglan rannsakar nú morð á heimili fyrir flóttafólk í Ljusne um helgina. Einn er í haldi lögreglu grunaður um að hafa stungið mann til bana í flóttamannamiðstöðinni eftir að til átaka kom á milli íbúa.

Málið hefur vakið upp óhug og um leið spurningar um öryggismál í yfirfullum miðstöðvum fyrir hælisleitendur í landinu.

Í frétt Expressen kemur fram að maðurinn hafi einnig verið kærður fyrir að hafa reynt að drepa þrjá aðra menn en allir þeir eru alvarlega slasaðir eftir átökin. Þrír til viðbótar voru handteknir á laugardagskvöldið í tengslum við rannsóknina en þeim hefur öllum verið sleppt úr haldi en eru enn með stöðu grunaðra.

Christer Nordström, lögreglumaður í Gävleborg segir í samtali við Expressen að talið sé að allir þeir sem tóku þátt í slagsmálunum séu á þrítugsaldri. Einhverjir þeirra létu sig hverfa áður en lögregla kom á vettvang og nú er unnið að því að leita þá uppi í tengslum við morðrannsóknina.

Ekki er vitað hvaða vopn voru notuð í árásinni en morðvopnið er beitt og að mennirnir þrír sem særðust séu allir með stungusár. Svo virðist sem átökin hafi komið til eftir að einhver hópur ungra karla, sem býr á öðru heimili fyrir hælisleitendur, kom í heimsókn til vina sinna á heimilið sem er í miðbæ Ljusne. Expressen segir að flestir, ef ekki allir, þeir sem tóku þátt í átökunum séu frá Afganistan.

Á milli 20-25 lögreglumenn voru kallaðir út á laugardagskvöldið vegna málsins en þegar lögregla kom á vettvang höfðu þrír menn, sem eru grunaðir um aðild að árásinni, læst sig inni í herbergjum sínum.

Innan við mánuður er síðan 22 ára starfsstúlka á heimili fyrir flóttafólk var stungin til bana í vinnunni.

Fréttir á vef Expressen um málið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert