29 milljónir í erfðaskrá Bin Laden

Osama bin Laden
Osama bin Laden Ljósmynd/Wikipedia

Osama Bin Laden skildi eftir sig auðæfi upp á um 29 milljónir Bandaríkjadala eftir dauða sinn í árás Bandaríkjamanna í maí árið 2011.

Erfðaskrá hans er meðal fjölda skjala sem gefin voru út til bandarískra fjölmiðla í dag en lagt var hald á hana í árásinni í Abbotabad í Pakistan.

Í erfðaskránni bað Bin Laden fjölskyldu sína um að fylgja vilja hans og eyða arfinum í „jihad, fyrir sakir Allah“. Í öðru bréfi bað hann föður sinn um að annast eiginkonu hans og börn skyldi hann láta lífið.

„Verði ég drepinn, biddu þá oft fyrir mér og gefðu reglulega til góðgerðarmáli í nafni mínu þar sem ég mun þurfa mikinn stuðning til að komast á varanlega heimilið,“ skrifaði Bin Laden.

Bin Laden sagði fjármagnið vera í Súdan en óljóst er hvort um ræddi reiðufé eða eignir eða hvort nokkuð af því hafi ratað til erfingjanna. Hann bjó í Súdan um fimm ára skeið á tíunda áratugnum sem gestur ríkisstjórnarinnar.

Í öðrum bréfum lagði hann mat sitt á „stríðið gegn hryðjuverkum“ og framgöngu Bandaríkjahers í Afganistan.

„Þeir héldu að stríðið yrði auðvelt og að þeir myndu ná markmiðum sínum á fáeinum dögum eða fáeinum vikum,“ skrifaði hann. „Við þurfum að vera þolinmóðir aðeins lengur. Með þolinmæði vinnst sigur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert