Hrottaleg nauðgun og morð

Málið þykir minna mjög á hryllilegt ofbeldi sem ung kona …
Málið þykir minna mjög á hryllilegt ofbeldi sem ung kona varð fyrir í höfuðborg Indlands undir lok árs 2012. AFP

Indverji, sem var ósáttur við að unnusta hans hefði slitið trúlofun þeirra, rændi henni og nauðgaði ásamt félaga sínum í síðustu viku áður en þeir höfuðkúpubrutu hana með grjóti og óku síðan yfir hana.

Að sögn lögreglu í Haryana-héraði á Norður-Indlandi var fórnarlamb hrottanna 23 ára. Eftir að hafa nauðgað henni og misþyrmt hentu þeir líkinu á afvikið iðnaðarsvæði þar sem það fannst fjórum dögum síðar. Ástæðan fyrir því að líkið fannst á föstudaginn er að fólk sá villihunda á sveimi á svæðinu en þeir höfðu nartað í líkið áður en fólk bar að.

Að sögn talsmanns lögreglunnar í borginni Sonipat eru tveir menn í haldi grunaðir um að hafa nauðgað og myrt ungu konuna. Annar mannanna og fórnarlambið voru trúlofuð en hún sleit trúlofuninni þar sem hún gat ekki hugsað sér að ganga í hjónaband með honum. „Hann vildi hefna sín,“ segir Jagjeet Singh, talsmaður lögreglunnar, í samtali við AFP í morgun.

Indverska lögreglan að störfum í Haryana.
Indverska lögreglan að störfum í Haryana. AFP

Singh segir að réttarmeinarannsókn sýni að konunni hafi verið byrluð ólyfjan áður en eða meðan ádæðinu stóð.

Réttindasamtök kvenna og stjórnmálamenn á Indlandi hafa krafist þess að mennirnir verði saksóttir fyrir ódæðið enda þykir það minna mjög á ofbeldið sem ung kona varð fyrir í höfuðborg Indlands undir lok árs 2013.

Leiðtogi stjórnarandstöðunnar á Indlandi, Sonia Gandhi, segir að villimannsleg og hrottafengin árás á konuna núna sé áfall fyrir indversku þjóðina og minni alla íbúa Indlands á þörfina á að tryggja öryggi kvenna. Tæplega 40 þúsund nauðganir eru tilkynntar á hverju ári á Indlandi en talið er að raunveruleg tala sé miklu hærri enda nánast ógerningur að kæra slíkt ofbeldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert