Transfólk ekki í herinn á tilætluðum tíma

James Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.
James Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. AFP

James Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hefur samþykkt að fresta gildistöku ákvörðunar sem ríkisstjórn Obama tók á sínum tíma um að leyfa transfólki að ganga í herinn í sex mánuði.

Þessi nýja stefna, sem myndi heimila hermönnum að hefja kynleiðréttingarferli sem stenst heilbrigðiskröfur á meðan þeir gegna herþjónustu, mun því ekki taka gildi fyrr en 1. janúar 2018. Aðgerðasinnar hafa lýst yfir vonbrigðum með ákvörðunina.

„Hver einasti dagur sem líður án virkrar stefnu kemur í veg fyrir að hinn vopnaði her geti ráðið inn þá bestu og klárustu, burt séð frá kynvitund þeirra,“ segir í yfirlýsingu frá Stephen Petersen, talsmanni mannréttindasamtakanna Human Rights Campaign.

Í minnisbréfi frá Mattis sem Wasington Post vitnar í segir ráðherrann að að höfðu samráði við ráðgjafa varnarmálaráðuneytisins hafi hann komist að því að lengri tíma þurfi til að taka ákvörðun um málið.

Í rannsókn sem gerð var í fyrra kom í ljós að af þeim 1,3 milljónum sem gegna herþjónustu séu á bilinu 2.500-7.000 trans-einstaklingar. Þess til viðbótar séu á bilinu 1.500-4.000 trans-einstaklingar í varaliði hersins.

Samkvæmt áætluninni, sem gerð var í stjórnartíð Ash Carter fyrrverandi varnarmálaráðherra, á transfólk að geta gengið í herinn svo lengi sem það hafi verið „í jafnvægi“  í sínu upplifaða kyni í 18 mánuði.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert