Dó eftir að vera sendur í meðferð við netfíkn

Meðferðarstöðvum við net- og tölvufíkn hefur fjölgað mikið í Kína …
Meðferðarstöðvum við net- og tölvufíkn hefur fjölgað mikið í Kína undanfarin misseri. Heraga er beitt á sumum stöðvanna. AFP

Dauði kínversks unglings, nokkrum dögum eftir að hann var sendur á meðferðarheimili sem sérhæfir sig í netfíkn, hefur endurvakið harða gagnrýni í garð slíkra miðstöðva í Kína.

BBC hefur eftir kínverskum miðlum að drengurinn, sem var 18 ára, hafi borið merki um margvíslega áverka og að forstjóri og starfsmenn miðstöðvarinnar séu nú í haldi lögreglu.

Atburðurinn átti sér stað í Anhui-héraði fyrr í mánuðinum. Liu, móðir drengsins, sagði son sinn hafa þróað með sér alvarlega netfíkn og þau hjónin hefðu ekki getað hjálpað honum. Þau hefðu því ákveðið að senda hann á meðferðarmiðstöð í Fuyang-borg, sem gaf sig út fyrir að bjóða upp á sambland sálfræðimeðferðar og líkamsræktar til að vinna á netfíkninni, að því er kínverska dagblaðið Anhui Shangbao greinir frá.

Þau skildu son sinn eftir í miðstöðinni að kvöldi 3. ágúst. Tveimur dögum síðar var þeim greint frá því að sonur þeirra hefði verið fluttur með hraði á spítala þar sem hann lést.

Dánarorsök er enn ókunn. Læknirinn sem skoðaði lík drengsins sagði foreldrum hans hins vegar að yfir 20 áverka hefði verið að finna á líkama hans utanverðum, auk nokkurra innri áverka. „Lík sonar míns var þakið örum frá toppi til táar. Þegar ég sendi son minn í miðstöðina var ekkert að honum. Hvernig gat hann verið dáinn tveimur sólarhringum síðar,“ sagði Liu, eftir að þau hjónin fengu að sjá lík drengsins.

Kínverska ríkissjónvarpið CCTV segir forstjóra og fjóra af starfsmönnum meðferðarheimilisins nú í haldi lögreglu og meðferðarstöðinni hafi verið lokað á meðan rannsókn stendur yfir.

Meðferðarstöðvum við net- og tölvufíkn hefur fjölgað mikið í Kína undanfarin misseri. Um er að ræða svo nefndar „boot camp“-stöðvar þar sem á að vinna gegn fíkninni. Herhaga er beitt í nokkrum stöðvanna, sem hafa verið gagnrýndar fyrir harkalega meðferð á sjúklingunum. Einnig beita sum meðferðarheimilanna barsmíðum og jafnvel raflostsmeðferð.

mbl.is