Óttast um 9 ára stúlku sem hvarf í brúðkaupi

Maëlys De Araujo hvarf í brúðkaupi frænku sinnar aðfaranótt sunnudags.
Maëlys De Araujo hvarf í brúðkaupi frænku sinnar aðfaranótt sunnudags. Skjáskot/Twitter

Áhyggjur fara nú vaxandi í Frakklandi af örlögum níu ára stúlku sem hvarf í brúðkaupi í austurhluta Frakklands. Stúlkan Maëlys De Araujo, sem er 9 ára, sást síðast í barnaherberginu á staðnum um þrjúleytið aðfaranótt sunnudags.

Ítarleg leit á svæðinu í kringum viðburðastaðinn, þar sem m.a. hefur verið notuð þyrla og leitarhundar, hefur enn ekki skilað neinum árangri. Björgunarsveitir, lögregla og slökkvilið hafa leitað Maëlys í nærliggjandi skógi, ám og holræsum.

Franska lögreglan er nú tekin til við að rannsaka málið sem mannrán og hefur biðlað til mögulegra vitna að gefa sig fram. Búið er að yfirheyra alla 180 gestina í brúðkaupinu sem var haldið í Pont-de-Beauvoisin í Isère og segir BBC lögreglu nú vera að hefjast handa við að yfirheyra þá vini og ættingja fjölskyldunnar sem ekki voru í brúðkaupinu.

Maëlys var í brúðkaupinu ásamt móður sinni, sem er frænka brúðarinnar, föður og eldri systur, en fjölskyldan býr í nágrannasveitarfélaginu Jura.

Franska dagblaðið Le Parisien hefur eftir Gregory, einum gestanna, að fólk hafi áttað sig á því að stúlkan var horfin þegar plötusnúðurinn tilkynnti hvarf hennar í míkrófóninn. „Skyndilega fóru allri að leita bæði í aðalsalnum og úti,“ segir hann.

„Þetta var hrein angist. Að verða vitni að hvarfi 9 ára það hefur áhrif. Við héldum fyrst að hún hlyti að hafa sofnað í einu horninu eftir feluleik. Þegar klukkutími var liðinn og hún var enn ófundin þá var lögregla kölluð á staðinn.“

Gregory sagðist telja að Maëlys hafi verið rænt, en fregnir herma að lögregluhundar hafi ekki getað numið lykt af henni neins staðar utan bílastæðisins þar sem brúðkaupið fór fram.

„Í ljósi þess tíma sem er liðinn frá því að hún hvarf og þeirra leiða sem hafa verið notaðar til að finna hana, þá er hvorki búið að útiloka að um slys né glæp sé að ræða,“ sagði í yfirlýsingu frá saksóknaranum Dietlind Baudoin.

mbl.is