Búa til klósettpappír úr pönduskít

Panda neytir matar í Shenyang-dýragarðinum. Kínverskur pappírsframleiðandi ætlar nú að …
Panda neytir matar í Shenyang-dýragarðinum. Kínverskur pappírsframleiðandi ætlar nú að búa til klósettpappír úr pönduskít. AFP

Kínverski pappírsframleiðandinn Qianwei Fengsheng er nú kominn í samstarf við miðstöð risapöndudýra í landinu. Samstarfið gengur út á að endurvinna skít og matarleifar risapöndunnar og búa til úr því klósettpappír, servéttur og annan heimilisvarning.

Von er á vörunum á markað í Kína á næstunni, en þær verða hluti svonefndar „pönduskíts“-vörulínu og verða skreyttar mynd af pöndu að borða bambusstöng.

„Þeir eru að sjá um ruslið fyrir okkur,“ sagði Huang Yan, einn vísindamannanna við pöndumiðstöðina í samtali við kínverska dagblaðið Chengdu Business Daily.

Sagði hann þau 10 kg af bambusúrgangi sem fullvaxin panda skíti daglega vera rík af trefjum. Auk þessa liggi eftir pöndurnar um 50 kg af mataraföngum dag hvern vegna bambushíðisins sem þær spýti út aftur eftir að vera búnar að tyggja það.

Við framleiðslu á pappír úr bambus þarf að brjóta niður sykrur í bambusnum til að ná út trefjunum. Þessi hluti framleiðslunnar á sér hins vegar náttúrulega stað í meltingarkerfi pöndunnar, að því er Yang Chaolin, forstjóri pappírsframleiðandans, sagði við kínversku Xinhua-ríkisfréttastofuna.

Fengsheng-fyrirtækið safnar nú úrganginum frá þremur bækistöðvum pöndumiðstöðvarinnar þrisvar í viku. Úrgangurinn er því næst soðinn, gerilsneyddur og honum breytt í pappír sem sæta mun bakteríuprófunum áður en hann fer á markað.

Segir AFP-fréttastofan að kassi af „pönduskíts“-bréfþurrkum muni kosta 43 yuan, eða um tæpar 700 krónur. „Pöndurnar fá það sem þær vilja og við líka,“ sagði Yang. „Allir vinna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert