Flugskeytið sannar aðkomu Írana

Ungur Jemeni horfir á rústir eftir loftárásir hernaðarbandalags Sádi-Arabíu í …
Ungur Jemeni horfir á rústir eftir loftárásir hernaðarbandalags Sádi-Arabíu í höfuðborginni Sanaa. AFP

Sádi-Arabar segja flugskeyti sem skotið var yfir landamærin frá Jemen sanni að Íranar útvegi uppreisnarmönnum þar í landi vopn. Sádar fara fyrir hernaðarbandalagi sem styður stjórnarher Jemen í stríði gegn uppreisnarmönnum Húta. Þeir hafa lengi haldið því fram að stjórnvöld í Íran styðji við baráttu Hútanna, m.a. með því að útvega þeim vopn. Þessu hafa Íranar ávalt neitað.

Yfirvöld í Sádi-Arabíu gerðu í dag flugskeyti sem skotið var yfir landamærin frá Jemen óvirkt. Skömmu áður höfðu uppreisnarmennirnir sagst hafa skotið því á loft. Var tilkynning þess efnis birt á Twitter. 

Síðustu vikur hefur eldflaugum ítrekað verið skotið yfir landamærin frá Jemen til Sádi-Arabíu. Uppreisnarmenn Húta náðu höfuðborg landsins, Sanaa, á sitt vald árið 2014 en síðustu vikur hefur hernaðarbandalaginu og stjórnarhernum tekist að endurheimta yfirráð yfir hluta borgarinnar. Hútarnir halda enn um valdataumana í mestöllum norðurhluta landsins.

Hernaðarbandalagið, sem Sádar leiða en Bandaríkjamenn, Bretar, Frakkar og fleiri styðja, hóf þátttöku í stríðinu í Jemen í mars árið 2015. 

Síðan þá hafa yfir 8.750 manns fallið í átökunum. Þá hafa farsóttir geisað og hungursneyð vofir yfir milljónum íbúa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert