Falskar fréttir og nú „fölsk bók“

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AFP

„Ég hef þurft að þola falskar fréttir frá því daginn sem ég tilkynnti forsetaframboð mitt. Nú þarf ég að þola falska bók sem rituð var af algerlega óáreiðanlegum höfundi. Ronald Reagan þurfti að takast á við sama vandamál og gerði það vel. Það mun ég gera líka.“

Þetta ritar Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, á Twitter-síðu sína í dag þar sem hann fjallar um bókina „Fire and Fury: Inside the Trump White House“ eftir bandaríska blaðamanninn Michael Wolff. Bókin er sögð fjalla um það sem gerðist á bak við tjöldin í kosningabaráttu Trumps og eftir að hann náði kjöri sem forseti Bandaríkjanna. Vísar Trump í Twitter-færslunni til forvera sína í forsetaembættinu, Ronalds Reagans.

Dregin er upp mynd af Trump í bókinni sem þykir benda til þess að hann sé algerlega óhæfur til þess að gegna embætti forseta Bandaríkjanna. Samherjar forsetans hafa hins vegar í kjölfar útgáfu bókarinnar á föstudaginn keppst við að lýsa yfir stuðningi við hann. Gekk einn svo langt að lýsa Trump sem stjórnmálasnillingi. Bókin hefur slegið í gegn.

Forstjóri bandarísku leyniþjónustunnar CIA, Mike Pompeo, mætti í dag í viðtal hjá sjónvarpsstöðinni Fox þar sem hann sagði að sú mynd sem Wolff drægi upp af Trump væri „hreinræktaðir hugarórar“. Sagði hann forsetann vera langt frá því að vera í litlu sambandi við það sem væri að gerast og óhæfur til að takast á við flókin málefni.

Það var einn af háttsettum ráðgjöfum forsetans, Stephen Miller, sem lýsti þeirri skoðun sinni að Trump væri í raun stjórnmálasnillingur í samtali við bandarísku sjónvarpsstöðina CNN í dag en Trump hafði áður sjálfur brugðist við útgáfu bókarinnar með því að lýsa sjálfum sér sem snillingi í góðu jafnvægi. Sagði Miller bæði bókina og Wolff vera sorp.

Miller sagði fyrrverandi samstarfsmann sinn í Hvíta húsinu, Steve Bannon, sem talinn er aðalheimildarmaðurinn á bak við bókina, hefnigjarnan og úr tengslum við raunveruleikann, en Bannon var sagt upp störfum í sumar. Hann starfaði sem einn af æðstu embættismönnum Hvíta hússins en vann áður í kosningateymi Trumps.

Viðtalið við Miller varð síðan mjög einkennilegt þar sem hann og þáttarstjórnandinn, Jake Tapper, skiptust á að grípa fram í fyrir hvor öðrum og ásaka hvor annan samkvæmt frétt AFP. Miller sakaði CNN um að reka áróður gegn Trump og flytja rangar fréttir. Lauk viðtalinu á því að Tapper sagði tilgangslaust að halda því áfram og kynnti næsta gest.

Miller hélt hins vegar áfram að tala þrátt fyrir að Tapper hafði snúið sér frá honum og byrjað að kynna næsta umfjöllunarefni. Ekki er farið fögrum orðum um Miller í bók Wolffs þar sem segir að hann hafi átt að vera heilinn á bak við stjórn Trumps en reynst illa að sér. Hann hafi átt að vera sérfræðingur í samskiptum en fengið alla upp á móti sér.

Trump var hins vegar greinilega ánægður með frammistöðu Millers í viðtalinu miðað við skrif hans á Twitter í dag þar sem hann sagði að Miller hefði rústað Tapper í viðtalinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert