Meirihluti sæskjaldbakanna nú kvenkyns

Chelonia mydas sæskjaldbaka.
Chelonia mydas sæskjaldbaka. Ljósmynd/Wikipedia.org

Mikill meirihluti sæskjaldbaka af tegundinni Chelonia mydas við ástralska kóralrifið eru í dag kvenkyns. Ástæðan er hækkandi hitastig af völdum loftslagsbreytinga, en það hefur áhrif á kyn skjaldbakanna á útungunartímanum. Þetta eru niðurstöður rannsóknir vísindamanna sem birtar eru í fagtímaritinu Current Biology.

Um 200.000 sæskjaldbökur leggja nú egg úti fyrir austurströnd Queensland í Ástralíu og er það einn stærsti stofn Chelonia mydas í heiminum. Vísindamenn telja hins vegar að hrun geti orðið á stofninum fjölgi karlkyns skjaldbökunum ekki.

Hitastigið sem eggin eru í við útungun hefur áhrif á kyn þeirra, hlýrri hreiður sem grafin eru í strendurnar þýða að fleiri kvenkyns skjaldbökur fæðast og aðeins nokkurra stigs munur í hita getur haft veruleg áhrif á jafnvægið milli kynjanna.

„Gert er ráð fyrir að hitastig jarðar hækki að meðaltali um 2,6 gráður til ársins 2100. Fjöldi sæskjaldbökustofna eru því í hættu á að egg ungist ekki út, sem og að aðeins kvenkyns skjaldbökur komi úr eggjunum,“ segir í greininni.

Rannsókn vísindamanna beindist að tveimur svæðum við Kóralrifið þar sem Chelonia mydas hefst við. Á svæðinu suður af rifinu þar sem hitastigið var kaldara voru kvenkyns skjaldbökur ívið fleiri en karlkyns, en á hlýrra svæðinu voru kvenkyns skjaldbökuungar yfir 90 % af stofninum og 86,8% af fullorðnu skjaldbökunum.

Michael Jensen, einn höfunda skýrslunnar, segir að varað hafi verið við þessari þróun í rúm 20 ár. Rannsóknin veiti hins vegar nýja innsýn í vandan sem þessir stofnar séu að fást við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert