Hvarfið enn ráðgáta

Janne Jemtland býr í smábænum Brumunddal í Noregi. Hennar hefur ...
Janne Jemtland býr í smábænum Brumunddal í Noregi. Hennar hefur verið saknað í ellefu sólarhringa.

Ellefu sólarhringar eru liðnir frá því að síðast spurðist til hinnar 36 ára gömlu Janne Jemtland, tveggja barna móður í smábænum Brumunddal í Noregi. Lögreglan er engu nær um hvarf hennar en telur að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað. Helstu rökin fyrir því er blóð sem fundist hefur á tveimur stöðum við vegkant í bænum.

Lögreglan hélt blaðamannafund í gær þar sem hún sagði frá stöðu málsins. Í kjölfarið bárust henni nokkrar ábendingar sem nú er verið að fylgja eftir. Mikið hefur snjóað á svæðinu síðustu daga og í morgun hefur verið grafið í snjónum á nokkrum stöðum. 

Skemmti sér í jólaboði

Jemtland var í jólaboði í samkomuhúsi í heimabæ sínum að kvöldi 28. desember. Aðrir gestir í veislunni segja að hún hafi leikið á als oddi og virst hress og kát. Bróðir hennar segist hafa fengið snapchatskilaboð frá systur sinni um kvöldið og á þeim hafi mátt sjá að hún skemmti sér hið besta. 

Hún yfirgaf veisluna í leigubíl ásamt eiginmanni sínum um klukkan tvö aðfaranótt hins 29. desember. Eftir að heim var komið hvarf hún hins vegar út í nóttina og hefur lögreglan engar skýringar á því. Lögreglan segist þess hins vegar fullviss að hjónin hafi skilað sér heim. Ekki er ljóst hvort hún fór að heiman fótgangandi og þá hvort hún var ein á ferð en kalt var í veðri þessa nótt. 

Hófu leit tveimur sólarhringum seinna

Hins vegar hefur komið fram að eiginmaður hennar tilkynnti ekki hvarf hennar fyrr en 30. desember, um 30 klukkustundum eftir að hún hvarf. Það var svo ekki fyrr en enn einum sólarhring síðar að lögreglan hóf leit að henni þar sem hún taldi málið ekki brýnt.

Við rannsókn á símagögnum hefur komið í ljós að merki frá síma Jemtland er numið í fjarskiptamastri í miðbæ Brumunddal um klukkan 5.50 að morgni föstudagsins 29. desember. Mastrið er í um 11 kílómetra fjarlægð frá heimili hennar. Lögreglan hefur ekki gefið upp hvort hringt hafi verið í eða úr síma hennar á þessum tímapunkti. 

Helstu vísbendingar sem fram hafa komið í málinu eru hins vegar blóðið. Fimmtudaginn 4. janúar sá vegfarandi blóð í vegkanti skammt frá miðbæ Brumunddal. Daginn eftir var staðfest að blóðið væri úr Jemtland. 

Tveimur dögum síðar fannst svo meira blóð en við annan veg í um kílómetra fjarlægð frá fyrri fundarstað. Í ljós kom að það blóð var einnig úr Jemtland. Staðirnir sem blóðið fannst á eru báðir í um 12 kílómetra fjarlægð frá heimili hennar.

Í gærkvöldi fannst svo meira blóð en í ljós kom að það var úr dýri.

Lögreglan segist ekki útiloka að ekið hafi verið á hana.

Jemtland á tvö börn, 10 og 13 ára gömul. Bróðir hennar, Terje Opheim, heldur enn í vonina um að hún finnist á lífi.

Umfangsmikil leit stendur yfir en hvarf Janne Jemtland er enn ráðgáta.

Greinin er byggð á fréttum NRK, VG, Dagbladet og Adresseavisen.

mbl.is
VILTU VITA HVAÐ ER FRAMUNDAN
SPÁI Í TAROT OG BOLLA. þEIR SEM FARNIR ERU SEGJA MER UM FRAMTÍÐ ÞÍNA. ERLA S. 58...
VÖNDUÐ VEL BÚIN KENNSLUBIFREIÐ
Vönduð, vel búin kennslubifreið Subaru XV 4WD . Akstursmat og endurtökupróf. Gyl...
Ertu komin í saumaskap ?
Nýjar og notaðar saumavélar í úrvali. Nýjar vélar með 3 ára ábyrgð. Notaðar véla...
Í Grafarvogi íbúð til leigu
100 ferm. rúmgóð 3ja herbergja íbúð á 1. hæð (enginn kjallari). Langtímaleiga la...