„Þú eyðilagðir líf þeirra“

Larry Nassar í dómsal.
Larry Nassar í dómsal. AFP

Larry Nassar, fyrrverandi læknir bandaríska fimleikalandsliðsins, var ávíttur í dag eftir að hann sagði dómara að það væri of erfitt fyrir hann að hlusta á vitnisburð fórnarlamba hans. Réttarhöld yfir Nassar standa yfir en hann hef­ur játað sök um kyn­ferðis­legt of­beldi í tíu mál­um í tveim­ur sýsl­um í Michigan og á yfir höfði sér lífstíðarfang­elsi. 

Dómari las sex blaðsíðna bréf frá Nassar þar sem hann sagðist óttast um andlega heilsu sína en hann er sakaður um að hafa misnotað meira en hundrað konur. Nassar gagnrýndi auk þess dómara fyrir að hleypa málinu upp í fjölmiðlasirkus vegna þess að honum hefði verið stillt upp fyrir framan fórnarlömbin.

„Þetta bréf er ekki pappírsins virði,“ sagði dómarinn, Rosemarie Aquilina. „Þér finnst kannski erfitt að hlusta á þetta en ekkert er eins erfitt og það sem fórnarlömb þín þurftu að þola vegna þín,“ bætti hún við.

Fjölmörg fórnarlamb hans koma fram og segja frá reynslu sinni fyrir dómara. „Það er ekki mikið að hlusta á þær segja sögu sína í fjóra eða fimm daga miðað við ánægjuna sem þú hlaust á þeirra kostnað; þú eyðilagðir líf þeirra,“ sagði Aquilina.

Jafnvel er bú­ist við því að fórn­ar­lömb­in séu allt að 160 tals­ins. Brot­in voru fram­in gegn þeim þegar þær voru á barns­aldri.

Jamie Dantzscher, sem vann bronsverðlaun á Ólympíuleikunum árið 2000, var ein af þeim fyrstu sem sakaði Nassar opinberlega um misnotkun. Í kjölfarið á misnotkunni þjáðist Dantzscher af miklu þunglyndi en hún var lögð inn á spítala eftir að hún reyndi að fremja sjálfsmorð. 

„Ég áttaði mig ekki á því hvað var að mér. Ég hafði ekkert sjálfstraust. Þú ert ekkert nema illskan,“ sagði Dantzscher og beindi orðum sínum að Nassar.

Umfjöllun Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert