Flótta kýrinnar Hermien loks lokið

Hermien (t.h) gæðir sér á heyi í Zandhuizen í gær …
Hermien (t.h) gæðir sér á heyi í Zandhuizen í gær þar sem hún mun eyða lífinu í vellystingum. AFP

Eftir að hafa verið tvo mánuði á faraldsklauf hefur kýrin Hermien, sem fangaði hjörtu Hollendinga eftir að hún slapp á elleftu stundu frá slátrun, náðst og mun hún eiga náðugt líf fyrir höndum.

„Hermien er loks komin heim eftir að hafa gengið langa og strembna leið að frelsinu,“ segir talsmaður góðgerðarsamtaka sem tekið hafa kúna að sér. 

Hermien er þriggja ára. Hún flúði undan smölum í desember er ætluðu að setja hana á bíl sem flytja átti hana í sláturhúsið. Hún flúði lengst inn í skóg í nágrenni býlis þar sem hún fór huldu höfði og komst ítrekað undan mannfólki sem reyndi að fanga hana. Þá laumaði hún sér inn í útihús að næturlagi til að fá sér að éta. 

Áfram Hermien!

Hlutskipti Hermien vakti mikla athygli í Hollandi og á Twitter notuðu margir myllumerkið #GoHermien (áfram Hermien) til stuðnings kúnni.

Efnt var til fjársöfnunar sem tókst vel og nú er svo komið að góðgerðarsamtökin Leemweg hafa tekið hana að sér. Hún verður ekki ein í dýraathvarfinu því félagi hennar á flóttanum, Zus, verður þar einnig. Hann var hins vegar ekki eins snjall og Hermien og náðist aðeins nokkrum klukkustundum eftir að hann slapp.

„En kýr gleyma engu og þau eru væntanlega brennd fyrir lífstíð og munu alltaf óttast fólk,“ segir í tilkynningu frá samtökunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert