Segir ásakanirnar tilhæfulausar

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, og lögreglustjórinn Roni Alsheikh. Netanyahu segir …
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, og lögreglustjórinn Roni Alsheikh. Netanyahu segir ásakanirnar í sinn garð tilhæfulausar en lögregla fullyrðir að hún geti lög­sótt for­sæt­is­ráðherr­ann fyr­ir mút­ur og trúnaðarbrest. AFP

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, segir ásakanirnar gegn sér vera „tilhæfulausar“ og að hann muni halda áfram að stjórna landinu. Ísraelskir fjölmiðlar greindu frá því í gær að lögregla ætli að ákæra Net­anya­hu fyrir spill­ingu.

Net­anya­hu var yf­ir­heyrður af lög­regl­unni í síðasta mánuði vegna rann­sókn­ar á ásök­un­um um spill­ingu. Á þeim tíma sagði Net­anya­hu: „Ekk­ert mun ger­ast, því það er ekk­ert.“

Í yfirlýsingu sem ísraelska lögreglan sendi frá sér í gær kom hins vegar fram að lögregla muni brátt til­kynna að næg sönn­un­ar­gögn séu til staðar til þess að lög­sækja megi for­sæt­is­ráðherr­ann fyr­ir mút­ur og trúnaðarbresti í tveim­ur mál­um.

Netanyahu ítreakaði í sjónvarpsávarpi í gær að ekkert verði úr ásökununum.

„Ég mun halda áfram að stjórna Ísrael af ábyrgð og trúmennsku jafnlengi og þið, íbúar Ísraels, veljið mig til að stjórna ykkur,“ sagði hann.

„Ég er þess fullviss að í næstu kosningum, sem verða haldnar samkvæmt áætlun, mun ég öðlast traust ykkar á ný.“

BBC segir að það geti tekið embætti ríkissaksóknara fleiri mánuði að ákveða hvort forsætisráðherrann verði ákærður.

Ásakanirnar gegn Net­anya­hu snúa annars vegar að því að hann á að hafa beðið út­gef­anda ísra­elsks dag­blaðs, Yediot Aharonot, um já­kvæða um­fjöll­un gegn því að hann myndi hjálpa til við að hindra út­gáfu keppi­naut­ar­dag­blaðs. Rit­stjóri blaðsins, Arnon Mozes, mun einnig verða sótt­ur til saka, sam­kvæmt ísra­elsk­um fjöl­miðlum.

Hitt málið snýst um ásak­an­ir þess efn­is að for­sæt­is­ráðherr­ann, sem gegnt hef­ur embætt­inu síðan 2009, hafi þegið gjaf­ir sem nema rúm­um 10 millj­ón­um ís­lenskra króna frá Hollywood-auðjöfr­in­um Arnon Milch­an og öðrum stuðnings­mönn­um. Milch­an má einnig bú­ast við lög­sókn.

Net­anya­hu neit­ar báðum ásök­un­um.

„Í gegnum árin hef ég sætt 15 rannsóknum og úttektum,“ sagði hann í ávarpi sínu í gærkvöldi. „Sumar hafa hafist með háværum ráðleggingum lögreglu, eins og í kvöld. Allar þessar tilraunir hafa hins vegar orðið að engu og svo mun einnig verða nú.“

Netanyahu hefur verið forsætisráðherra Ísraels í 12 ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert