„Andlit mitt kraumaði“

Lucia Annibali er í framboði til ítalska þingsins en hún er í framboði fyrir Lýðræðisflokkinn (PD). Eitt helsta baráttumál hennar er að binda endi á kynbundið ofbeldi en hún varð sjálf fyrir hrottalegri sýruárás af hálfu fyrrverandi unnusta. 

Líf Annibali, sem er lögfræðingur, breyttist á einu vettvangi 6. apríl 2013 þegar hún kom heim til sín að loknum vinnudegi í Pesaro. Þar beið hennar hettuklæddur karlmaður sem sprautaði sýru yfir andlit hennar og nánast blindaði hana. 

„Andlit mitt kraumaði,“ segir Annibali þegar hún lýsir óttanum og kvölunum þegar sýran brann á andliti hennar. Hún var flutt með hraði á brunadeild sjúkrahússins í Parma en borgin er í tveggja og hálfs tíma akstursfjarlægð frá heimili hennar. Annibali greindi lögreglu frá því að fyrrverandi unnusti hennar, sem einnig er lögmaður, hafi borið ábyrgð á árásinni en hann var síðar dæmdur í 20 ára fangelsi fyrir að ráða tvo Albana til að fremja ódæðið.

Síðar þetta sama ár bað yfirmaður Jafnréttisstofu, Maria Elena Boschi, Annibali að gerast ráðgjafi hjá stofnuninni og þáði hún starfið. Þar starfar hún enn. „Árásin breytti lífi mínu til góðs,“ segir hún í dag. Hún segir að það sé vegna þess að hún hafi áttað sig á misréttinu sem ríki og hún hafi tekist að við áskoranir og haft betur. Hún hafi lært að meta virði lífsins á nýjan leik.

Undanfarin ár hefur hún farið í fjölmargar aðgerðir á andliti til þess að laga örin eftir árásina. Sjónin hefur einnig komið að mestu til baka. 

„Eftir árásina þá velti ég fyrir mér hvernig ég gæti byrjað að nýju. Ég vildi finna leið til þess að ná sem mestu fram sem lögfræðingur og niðurstaðan var að stjórnmál gætu verið besti vettvangurinn,“ segir hún. 

Annibali er í framboði í Parma og þykja miklar líkur á að hún komist á þing. Hún er heiðursborgari í Parma en þar hefur hún þurft að fara í um það bil 20 aðgerðir á sjúkrahúsinu eftir árásina. 

Lyfjafræðingur og íbúi í Parma sem AFP ræddi við, Enrico Bruschi, segir að borgarbúar vonist til þess að kona sem hafi slíkar lífsvilja og baráttuþrek komist á þing til að berjast fyrir hagsmunum borgarbúa.

Heimilisofbeldismál á Ítalíu eru færri en að meðaltali í Evrópu en 27% kvenna á Ítalíu, 15 ára og eldri, hefur orðið fyrir líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi. Í Evrópu er meðaltalið 33%.

Þrátt fyrir það er ekki ólíklegt að talan sé mun hærri því rannsóknir sýna að konur í Suður-Evrópu eru gjarnari að þegja um ofbeldi sem þær verða fyrir á heimilum sínum. Aðeins 11% þeirra kvenna sem hafa orðið fyrir kynbundnu ofbeldi kæra það og yfir 80% kvenna sem verða fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað greina frá því.

En #MeToo byltingin hefur hreyft við mörgum konum á Ítalíu þar sem leikkonan Asia Argento hefur sett ofbeldi gagnvart konum á oddinn í opinberri umræðu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert