Kennsl borin á sprengjumanninn

Lögreglan leitar að sönnunargögnum á staðnum þar sem maðurinn sprengdi …
Lögreglan leitar að sönnunargögnum á staðnum þar sem maðurinn sprengdi sjálfan sig í loft upp. AFP

Maðurinn sem er grunaður um að hafa staðið á bak við pakkasprengjuárásir í Texas í Bandaríkjunum hét Mark Anthony Conditt og var 23 ára, að sögn bandarískra fjölmiðla.

Hann sprengdi sjálfan sig í loft upp eftir að lögreglumenn umkringdu bíl hans í borginni Round Rock í Texas.

Að sögn yfirvalda bjó maðurinn um 30 kílómetrum frá Austin, höfuðborg Texas, samkvæmt frétt BBC.  

Yfirvöld hafa enn ekki greint opinberlega frá nafni mannsins.

Fjór­ar sprengju­árás­ir hafa verið gerðar í Austin síðustu daga. Sprengj­urn­ar voru send­ar í pósti og sprungu er send­ing­arn­ar voru opnaðar. Óttast er að fleiri sprengjum hafi verið komið fyrir í borginni. 

Tveir hafa farist og sex særst í sprengingunum.

Greg Abbot, ríkisstjóri Texas, sagði við sjónvarpsstöðina Fox News að Conditt hafi búið með tveimur meðleigjendum sínum í Flugerville, um 30 kílómetrum suður af Austin.

Mennirnir sem bjuggu með honum hafa verið yfirheyrðir af lögreglunni en þeir eru ekki grunaðir um aðild að pakkasprengingunum. 

Lögreglumenn í Round Rock.
Lögreglumenn í Round Rock. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert