Puigdemont mætir fyrir dómara á morgun

Carles Puigdemont.
Carles Puigdemont. AFP

Carles Puigdemont, fyrrverandi forseti Katalóníuhéraðs, mun mæta fyrir dómara í Þýskalandi á morgun, en þýska lögreglan handtók Puigdemont í dag á grundvelli evrópskrar handtökutilskipunar. 

Hann er eftirlýstur á Spáni fyrir uppreisn og fyrir að hvetja til uppreisnar. Hann var handtekinn við landamærin að Danmörku þegar hann var að reyna að komast til Belgíu að sögn lögmanns Puigdemont. 

Stuðningsmenn hans söfnuðust saman í Barcelona í dag til að mótmæla handtöku hans. Ákærurnar sem hann stendur frammi fyrir heima á Spáni eru mjög alvarlegar og gæti hann átt 30 ára fangelsi yfir höfði sér verði hann fundinn sekur. 

Puigdemont hefur verið í sjálfskipaðri útlegð í Belgíu frá því katalónska þingið lýsti einhliða yfir sjálfstæði frá Spáni í október. Hann var staddur í Finnlandi þegar handtökuskipun á hendur honum var gefin út.

Fjölmenn mótmæli brutust út í Barcelona eftir að fréttir bárust …
Fjölmenn mótmæli brutust út í Barcelona eftir að fréttir bárust af því að Puigdemont hefði verið handsamaður í Þýskalandi. AFP

Puigdemont tókst að lauma sér úr landi á föstudag þegar lögreglan í Finnlandi hugðist hafa hendur í hári hans. Þýska lögreglan handsamaði hann hins vegar, eins og áður segir, og nú mun hann gista í fangelsi í nótt í bænum Neumuenster.

Þinghaldið á morgun snýst fyrst og fremst um að ganga frá formlegum atriðum eins og að hann staðfesti hver hann sé. Í framhaldinu verður tekin ákvörðun um hvort hann verði áfram í haldi lögreglu á meðan verið er að fara yfir framsalskröfu spænskra stjórnvalda. 

Þýska lögreglan segir að lögreglumenn hafi handtekið hann við umferðareftirlit í Schleswig-Holstein, sem liggur að Danmörku. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert